SVONEFNDUR "Friðarsteinn" frá Hiroshima verður afhjúpaður á grasflöt við suðvesturhorn Reykjavíkurtjarnar klukkan fjögur í dag.

SVONEFNDUR "Friðarsteinn" frá Hiroshima verður afhjúpaður á grasflöt við suðvesturhorn Reykjavíkurtjarnar klukkan fjögur í dag. Kertafleyting til minningar um þá sem létust í kjarnorkusprengingunum í Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945 fer jafnan fram þar.

Michio Umemoto, formaður "Stone for Peace Association of Hiroshima" mun afhenda Íslendingum friðarsteininn og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tekur við honum fyrir hönd Íslendinga. Utanríkisráðuneytið hefur haft milligöngu um framkvæmd afhendingar steinsins hér á landi, en Listasafn Reykjavíkur hefur annast uppsetningu verksins. Samtökin voru formlega stofnuð í maí 1991 fyrir tilstuðlan Reikiyo Umemoto, sem var framkvæmdastjóri járnbrautafyrirtækis í Hiroshima þegar kjarnorkusprengjunni var varpað. Hann setti sér það markmið að hreinsa steinana sem teinarnir lágu á, í minningu þeirra sem létust. Síðan hafa yfir 90 þjóðir tekið við steinunum, en í þá eru höggvin ímynd gyðju miskunnseminnar.