VERKTAKAR á vegum Gatnamálastofu hafa verið önnum kafnir á gatnamótum Lönguhlíðar og Miklubrautar í Reykjavík síðustu dægrin og hefur það valdið einhverjum töfum á umferð. Að sögn Sigurðar Skarphéðinssonar gatnamálastjóra er verið að koma fyrir svokallaðri þrepaðri gangbraut, líkt og á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Þá er í flestum tilfellum gengið yfir á tvennum ljósum. Sigurður segir að þessar ráðstafanir muni auka öryggi gangandi vegfarenda til muna að mati Gatnamálastofu. "Hjólandi vegfarendur eru þó ekki eins ánægðir með þetta fyrirkomulag, þar sem þeir þurfa að fara af baki og leiða hjólin," segir Sigurður.
Spurður hvort ekki skapist hætta á að eldri borgarar eða börn ruglist ekki og sjái röng ljós segir Sigurður litla hættu á því. "Við erum með þannig hlífar á ljósunum að fólk á bara að geta séð ein ljós í einu," segir Sigurður og bendir á að um þessi gatnamót fari einmitt mjög mikið af skólabörnum. "Við hvetjum þó gangandi vegfarendur til að nota líka undirgöngin og afskrifa þau ekki, því þau eru einnig mjög hentug yfirbraut. Við erum líka að vinna að því að bæta lýsingu þar og gera göngin betri."