HÆTTA þurfti við flugtak Fokker-vélar Flugfélags Íslands á Akureyrarflugvelli um kl. 9 í gærmorgun, eftir að upp kom reykur í öðrum hreyfli vélarinnar. Flugvélin var komin af stað í flugtak frá suðri til norðurs þegar atvikið varð og var þegar hætt við flugtak, vélinni ekið að flugstöðinni og farþegum hleypt frá borði.
Að sögn Jóns Karls Ólafssonar, framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands, kom upp olíuleki í öðrum mótornum og olía smitaðist þannig út á mótorinn. Hann sagði að ekki hefði verið nein hætta á ferðum, allir rólegir um borð og fullur þrýstingur á hreyflinum en hins vegar væri fyllsta öryggis ávallt gætt.
Hreiðar Júlíusson frá Akureyri var farþegi um borð í vélinni í gærmorgun og hann sagði að vélin hefði verið komin á þónokkra ferð þegar hægt var snögglega á henni og henni snúið að flugstöðinni. Hann sagði að megn olíulykt hefði verið í farþegarýminu en að ekki hefði verið nein hætta á ferðum að sínu mati, enda menn sýnt mjög snör viðbrögð.
Vélin var strax tekin til skoðunar á Akureyrarflugvelli en farþegarnir, um 15 manns, héldu áfram för sinni til Reykjavíkur með næstu vél, um einni klukkustund síðar.