MEÐ fjárfestingunni í fjárfestingarsjóðnum CVIL fæst ekki eingöngu fjárhagslegur ávinningur heldur einnig ákveðin reynsla sem mun nýtast búlgarska símanum BTC, að sögn Björgólfs Thors Björgólfssonar.

MEÐ fjárfestingunni í fjárfestingarsjóðnum CVIL fæst ekki eingöngu fjárhagslegur ávinningur heldur einnig ákveðin reynsla sem mun nýtast búlgarska símanum BTC, að sögn Björgólfs Thors Björgólfssonar. Hann segist trúa því að þróunin í Búlgaría á komandi áruum muni verða með svipuðum hætti og verið hefur í Tékklandi á undanförnum árum.

Hann leggur áherslu á að í raun sé um tvenns konar fjárfestingu í Tékklandi að ræða, annars vegar í farsímarekstri og hins vegar í dreifikerfi fyrir sjónvarps- og útvarpssendingar og fastlínukerfi. Honum hafi fundist spennandi að CRa sé í öðrum rekstri en búlgarski síminn BTC, sem er á fastlínumarkaði. Þar hafi hann séð fram á að geta fengið ákveðinn lærdóm sem muni geta nýst BTC, því menn séu komnir lengra í Tékklandi. "Ég tel að sú reynsla sem við getum fengið út úr farsímarekstrinum hér muni nýtast okkur í uppbyggingu BTC, sem og til að koma auga á önnur tækifæri í löndunum á þessu svæði," segir Björgólfur Thor.

Hann segir að mikil uppstokkun hafi átt sér stað á fjarskiptamarkaðinum í Tékklandi og í löndunum þar í kring á undanförnum árum. Verið sé að einkavæða mörg fyrirtæki og miklir möguleikar séu á sameiningum, bæði innan Tékklands og í nágrannalöndunum.