"Upp í svartnættið", rýmisverk eftir Ólaf Þórðarson í sýningarsal Íslenskrar grafíkur.
"Upp í svartnættið", rýmisverk eftir Ólaf Þórðarson í sýningarsal Íslenskrar grafíkur.
Opið föstudaga, laugardaga og sunnudaga kl. 14-18. Sýningu lýkur 7. ágúst.

YFIRSKRIFT sýningar Ólafs Þórðarsonar, Draumbrot, í sýningarsal Íslenskrar grafíkur, er vel við hæfi, þar sem listamaðurinn virðist ekki einblína á sérstaka heildarmynd heldur byggir hann sýninguna upp með fjölda smáverka úr ýmsum áttum og virkar sem sýnishorn eða brot af því sem hann hefur verið að sýsla undanfarið. Ólafur er einn þeirra sem telja að engin landamæri eigi að vera á milli listmiðla, er sjálfur arkitekt að mennt en vinnur jöfnum höndum við iðnhönnun og myndlistarsköpun.

Það eru vissulega fjölmörg dæmi um listamenn sem mynda sannfærandi brú þarna á milli, en fyrir mitt leyti er þetta þó alltaf spurning um nálgun og þótt Ólafur setji afurðir sínar undir einn og sama hattinn er sýningin ósamstæð. Það vottarreyndar fyrir vissu áhyggjuleysi hjá listamanninum í flestu sem hann gerir og er einna skemmtilegasti þáttur sýningarinnar, léttpönkaður, ef svo má að orði komast. En að mínu mati tekst Ólafi margfalt betur til við hönnun nytjahluta, s.s. klakaboxa, klukkuverka og kaffibolla, en sköpun annarra hluta. Sumir nytjahlutanna hafa jafnvel gagnrýnar pólitískar skírskotanir og samtal eða átök skapast á milli hugmyndar, fagurfræðinnar og notagildis.

Aðrir hlutir á sýningunni sem ekki eru til nytja ná ekki slíku flugi, eru kannski ágætis myndskýringar, "one-liners"-orðaleikir.

Jón B.K. Ransu