ÓLI Brynjar Sverrisson, skipstjóri á Bjargey EA, segir að kvótasetning dagabáta sé ósanngjörn og segist ekki hafa viljað sjá þessa báta fara inn í kvótakerfið. Bjargey verður með næstmestan kvóta núverandi dagabáta, þegar bátarnir verða komnir inn í aflamarkskerfið.
Hann segir að halda hefði mátt dagakerfinu óbreyttu eða breyta því á einhvern annan hátt, t.d með því að setja á það þak.
Sóknardagakerfið var afnumið með breytingu á fiskveiðistjórnunarlögum á Alþingi í maí og fá sóknarbátar nú úthlutað kvóta.
"Það var alltaf mikil óvissa um hver afdrif kerfisins yrðu og það olli erfiðleikum í rekstri," segir Óli.
Hann segir að sérstaklega sé ósanngjarnt að ekki hafi verið horft til þeirra sem hafi verið að vinna þennan kvóta inn, en hann er ekki eigandi bátsins. "Það er ekki minnst orði á þá sem hafa haft atvinnu af þessu og ansi margir sem munu ekki hafa neitt að gera í kjölfarið. Flestir skipstjórar eiga ekki bátinn sem þeir róa á og það er ekkert horft til þeirra. Margir ætla að hætta eða taka allan sinn afla inn á línu og drífa þetta af. Það verður mikil fækkun í greininni og minni útgerð á sumrin héðan í frá," segir Óli Brynjar.
Hann segir að réttast hefði verið að miða afla hvers báts út frá brúttótonnum bátsins. "Mér finnst það vera sanngjarnasta leiðin," segir Óli og bætir við að fjöldi sóknarbáta sé of mikill og afkastageta bátanna sé orðin mun meiri en áður.
Hann segir að framhaldið hjá sér sé óákveðið en í sumar liggi fyrir að klára sóknardagana.