ÁSTRALSKT dótturfyrirtæki bandaríska álrisans Alcoa hefur hafið viðræður við raforkuframleiðendur um raforkuverð fyrir áætlaða stækkun álvers fyrirtækisins í Portland í Ástralíu. Álverið framleiðir nú um 300.

ÁSTRALSKT dótturfyrirtæki bandaríska álrisans Alcoa hefur hafið viðræður við raforkuframleiðendur um raforkuverð fyrir áætlaða stækkun álvers fyrirtækisins í Portland í Ástralíu. Álverið framleiðir nú um 300.000 tonn af áli árlega, en til stendur að verja um einum og hálfum milljarði ástralíudala, eða um 75 milljörðum íslenskra króna, í að stækka álverið og auka þar með framleiðslu þess um 200.000 tonn á ári.

Forstjóri Alcoa World Alumina Australia, Wayne Osborn , sagði í gær að fyrirtækið ætti í viðræðum við raforkuframleiðendur og stjórnvöld í Victoríu-fylki, um stækkunina og sagði Osborn að framgangur stækkunarinnar væri mjög háður því að viðunandi raforkuverð fengist.

Mat á umhverfisáhrifum stækkunarinnar á að liggja fyrir um mitt næsta ár, og að fengnu leyfi stjórnvalda gæti hinn nýi kerskáli komist í gagnið um tveimur og hálfu ári seinna.