Víkverji var einn af þeim sem héldu kyrru fyrir í höfuðborginni um verslunarmannahelgina og er hann hæstánægður með þessa ákvörðun sína.

Víkverji var einn af þeim sem héldu kyrru fyrir í höfuðborginni um verslunarmannahelgina og er hann hæstánægður með þessa ákvörðun sína. Örfáir voru á ferli í borginni og leið Víkverja stundum eins og Palla sem var einn í heiminum þegar hann ók um auðar götur borgarinnar. Víkverji hafði það náðugt, lá uppi í sófa og sá myndir af útihátíðargestum hér og þar um landið, suma niðurrignda, og prísaði sig sælan að hafa haldið kyrru fyrir heima hjá sér.

Þótt skömm sé frá að segja hefur Víkverji ekki sofið eina nótt í tjaldi í allt sumar og er það í fyrsta skipti á hans ævi sem það gerist. Eitthvað hefur hann þó lagt land undir fót og hver veit nema Víkverji fái tækifæri til að tjalda það sem eftir lifir sumars.

Í dag ætlar Víkverji að skella sér norður í land, þar sem hann ætlar að taka þátt í hátíðarhöldum vegna Fiskidagsins mikla á Dalvík. Víkverji er afar spenntur að sjá hvernig sá dagur muni fara fram og finnst þetta ansi gott framtak hjá Dalvíkingum og dæmi um hvernig góð hugmynd getur undið upp á sig. Það er jú tilvalið að gera fiskinum, sem haldið hefur lífinu í íslensku þjóðinni í gegnum aldirnar, hátt undir höfði, drekka, eta og vera "glaðrrrr".

Sá á kvölina sem á völina, en einnig má gera ráð fyrir að mikið verði um dýrðir í Reykjavík um helgina þegar Gay-Pride heldur innreið sína. Í þau skipti sem Víkverji hefur verið í bænum þessa helgi hefur hann tekið þátt í skrúðgöngunni og hátíðarhöldunum með hýrri há og skemmt sér konunglega.

Nú er bara að sjá hvort dalvískar fiskafurðir standast samanburðinn! Og hver veit nema Víkverji taki upp á því að tjalda í litlum lundi við litla tjörn í einum fallegasta dal á Íslandi, Svarfaðardal!