FLUGFÉLAGIÐ Atlanta bætir B747-200-fraktþotu við flota sinn síðar í þessum mánuði vegna verkefnis fyrir Cathay Pacific Airways. Samið hefur verið um verkefnið til sextán mánaða með möguleika á framlengingu en það hefst 18. ágúst.

FLUGFÉLAGIÐ Atlanta bætir B747-200-fraktþotu við flota sinn síðar í þessum mánuði vegna verkefnis fyrir Cathay Pacific Airways. Samið hefur verið um verkefnið til sextán mánaða með möguleika á framlengingu en það hefst 18. ágúst. Samningsverðmætið er kringum 1,7 milljarðar króna.

Hafþór Hafsteinsson, forstjóri Atlanta, tjáði Morgunblaðinu að markaður fyrir leiguverkefni í flugi væri að taka við sér en verðlag væri þó enn í lægri kantinum. "Verkefni okkar eru að verða stöðugri með aukinni flugumferð á ný þótt verð fyrir þau sé ennþá lágt," segir Hafþór.

Fraktverkefnið nýja snýst annars vegar um flug milli Hong Kong og München og Frankfurt um Dubai og hins vegar milli Hong Kong og borga í Bandaríkjunum, Anchorage, Los Angeles, Chicago, New York, Atlanta og Dallas, í gegnum Seúl í Suður-Kóreu. Sex til sjö áhafnir eru að staðaldri í þessu flugi ásamt flugvirkjum og stöðvarstjóra á jörðu niðri.

"Þetta verður í fyrsta skipti sem Air Atlanta flýgur reglubundið frakt á milli Asíu og Bandaríkjanna," segir Hafþór ennfremur. "Þetta er skemmtilegt skref fyrir okkur þegar verkefnið byrjar því þá má segja að við fljúgum hringinn í kringum hnöttinn á degi hverjum í verkefnum okkar víða um heim. Okkur vantaði alltaf að fljúga reglubundið yfir Kyrrahafið til að loka hringnum."

Hjá Air Atlanta Icelandic og Air Atlanta Europe eru nú 36 þotur í rekstri, þar af þrettán Boeing 747-fraktþotur.