Rúnar Helgi með símann sem fannst eftir þriggja vikna volk í sjónum. Hann verður notaður þegar Rúnar fer til róðra, þar sem síminn er kominn með góða reynslu af sjávarlífinu.
Rúnar Helgi með símann sem fannst eftir þriggja vikna volk í sjónum. Hann verður notaður þegar Rúnar fer til róðra, þar sem síminn er kominn með góða reynslu af sjávarlífinu. — Morgunblaðið/Árni Torfason
RÚNAR Helgi Haraldsson var heldur en ekki hissa þegar hann fékk símhringingu nú í vikunni um að farsími sem hann týndi þegar hann var á kajak í Skerjafirði þremur vikum áður hefði fundist í grennd við Sandgerði, þar sem hann hafði rekið á land.

RÚNAR Helgi Haraldsson var heldur en ekki hissa þegar hann fékk símhringingu nú í vikunni um að farsími sem hann týndi þegar hann var á kajak í Skerjafirði þremur vikum áður hefði fundist í grennd við Sandgerði, þar sem hann hafði rekið á land. Síminn er í fínu ástandi þrátt fyrir þriggja vikna volk í sjónum, en hann var í vatnsheldum poka.

"Við vorum tveir að róa á sjókajak úti við Tvísker í Skerjafirði. Við höfum yfirleitt með okkur te til að hressa okkur við," segir Rúnar Helgi. Þegar hann teygði sig í geymslunet framan á bátnum, til að ganga frá tebrúsanum, datt farsíminn útbyrðis án þess að hann yrði þess var. "Farsíminn var í vatnsheldum poka, sem er ætlaður fyrir farsíma. Það er hægt að blása þessa poka upp þannig að þeir fljóta á vatni og eru algjörlega vatnsheldir," segir Rúnar Helgi.

Síminn var í þrjár vikur í sjónum, þar sem hann rak með straumum og vindi að Stafnesi, sem er 8 km sunnan af Sandgerði. Þar gekk ábúandinn, Jón Ben Guðjónsson, fram á eldrauðan símapokann. "Ég bara skellti upp úr, mér fannst þetta svo sniðugt. Í fyrstu ætlaði ég ekki að trúa þessu," segir Rúnar Helgi um hvernig honum hafi orðið við fréttirnar.

"Það er allt í lagi með símann, hann er alveg þurr. Ég var búinn að kaupa mér nýjan síma, ég hef þennan bara sem auka, þegar ég er að fara á kajak. Hann er með reynslu," segir hann og hlær.