Fjölbreytt aðstaða er fyrir hendi í húsinu til rannsókna og fræðastarfs.
Fjölbreytt aðstaða er fyrir hendi í húsinu til rannsókna og fræðastarfs.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sandgerði | Bæjarráð Sandgerðisbæjar lagði til á síðasta fundi sínum að ráðist yrði í gagngerar endurbætur á því húsnæði sem Háskólasetur Suðurnesja í Sandgerði hefur fengið til afnota.

Sandgerði | Bæjarráð Sandgerðisbæjar lagði til á síðasta fundi sínum að ráðist yrði í gagngerar endurbætur á því húsnæði sem Háskólasetur Suðurnesja í Sandgerði hefur fengið til afnota. Óskað hafði verið eftir frumdrögum og kostnaðaráætlun til að endurbyggja húsnæðið og kom í ljós að það þarfnaðist algerrar endurbyggingar. Fram kom að endurgerð verði ekki ódýrari en nýbyggingarkostnaður eða um fimmtán milljónir króna.

Við athugun á húsnæðinu, sem er staðsett á Garðavegi 1, kom í ljós að alger endurbygging innandyra væri óhjákvæmileg.

Í húsinu fer fram nokkuð umfangsmikil og víðtæk fræðastarfsemi og rannsókna- og vísindasamstarf. Þar starfa um tíu manns í fjórum fræðastofum en þar eru nú til húsa, auk Háskólasetursins, Náttúrustofa Reykjaness, Rannsóknarstöðin í Sandgerði og Fræðasetrið í Sandgerði.

Fjölbreytt aðstaða samnýtt

Reynir Sveinsson, forstöðumaður Fræðasetursins í Sandgerði, segir að með því að hafa Háskólasetrið inni í húsnæðinu að Garðavegi 1 sé verið að samnýta þá aðstöðu sem fyrir er í húsinu. "Má þar nefna það sem við köllum blautrými, þar sem hægt er að stunda alls kyns rannsóknir með rennandi sjó á ýmsum hitastigum. Ennfremur eru þarna góðir fyrirlestrasalir, gistiaðstaða og önnur aðstaða sem býður upp á mjög fjölbreytta starfsemi," segir Reynir.

"Það er ekki nokkur vafi á því að þessi starfsemi hefur verið góð fyrir bæjarfélagið og aukið hróður Sandgerðis út á við. Þarna eru líka tækifæri fyrir ungt heimafólk til að læra og stunda rannsóknir auk þess sem þarna er mikill gestagangur allan ársins hring."

Fyrirhugað er að taka lán til að fjármagna endurbæturnar þar til fjármagn fæst frá hinu opinbera í formi leigu á húsnæðinu.