FRAMKVÆMDASTJÓRI Vikings björgunarbúnaðar segir að verð fyrir skoðun á björgunarbátum hér á landi sé sambærilegt eða lægra en víðast hvar í Evrópu og Bandaríkjunum. Ekki er þá tekið tillit til 24,5% virðisaukaskatts sem skemmtibátaeigendur þurfa að greiða en útgerðarmenn eru honum undanþegnir.
Einar Haraldsson, framkvæmdastjóri Vikings, segir að fyrirtækið geri ekki kröfur um árlega skoðun björgunarbáta heldur sé um að ræða alþjóðlegar reglur sem fyrirtækið hafi tekið upp. Reglur varðandi skemmtibáta geti samt verið nokkuð mismunandi milli landa en hann þekki þó ekki sérlega vel til þeirra mála. Kröfurnar séu þó sífellt að aukast og notkun björgunarbáta sé sífellt að aukast í skemmtibátum.
"Það sem stendur út af borðinu er að skemmtibátaeigendur þurfa að borga virðisaukaskatt en þess þarf ekki af fiskiskipum. Þannig að þeirra skoðun er fjórðungi dýrari fyrir bragðið," segir hann.