BJÖRGÓLFUR Thor Björgólfsson hefur ásamt hópi íslenskra og erlendra fjárfesta fjárfest í sérhæfða fjárfestingarsjóðnum CVIL. Eina eign sjóðsins er 71,9% eignarhlutur í næststærsta fjarskiptafélagi Tékklands, Ceske Radiokomunikace (CRa).

BJÖRGÓLFUR Thor Björgólfsson hefur ásamt hópi íslenskra og erlendra fjárfesta fjárfest í sérhæfða fjárfestingarsjóðnum CVIL. Eina eign sjóðsins er 71,9% eignarhlutur í næststærsta fjarskiptafélagi Tékklands, Ceske Radiokomunikace (CRa). Jafnframt var í gær gert yfirtökutilboð í hlutabréf minnihlutaeigenda í Kauphöllinni í Prag. Markaðsverð CRa er 36,7 milljarðar króna og gildir yfirtökutilboðið í fimm vikur.

Björgólfur Thor segir að með þessari fjárfestingu fáist ekki eingöngu fjárhagslegur ávinningur heldur einnig ákveðin reynsla sem muni nýtast búlgarska símanum BTC, sem hann og fleiri íslenskir fjárfestar eiga hlut í. "Ég tel að sú reynsla sem við getum fengið út úr farsímarekstrinum hér muni nýtast okkur í uppbyggingu BTC, sem og til að koma auga á önnur tækifæri í löndunum á þessu svæði," segir Björgólfur Thor.

Markaðshlutdeild um 41%

CRa var stofnað árið 1963 og var áður í eigu tékkneska ríkisins en var einkavætt árið 2001. Þá keypti Deutsche Bank 51% eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu en átti fyrir 20,9% hlut. Eignin var síðar færð yfir í fjárfestingarsjóðinn CVIL.

Starfsemi CRa skiptist í símaþjónustu og sjónvarps- og útvarpssendingar. Langstærsta eign þess er 39,2% eignarhlutur í T-Mobile, sem er næst stærsta farsímafyrirtæki Tékklands en meirihluti hlutafjár í T-Mobile er í eigu Deutsche Telecom. T-Mobile hefur tæplega 41% markaðshlutdeild á farsímamarkaði í Tékklandi.