GUÐMAR Ragnar Stefánsson, bóndi á Brú II í Jökuldal, segir að Jökla hafi ekki sýnt tennurnar enn sem komið er.

GUÐMAR Ragnar Stefánsson, bóndi á Brú II í Jökuldal, segir að Jökla hafi ekki sýnt tennurnar enn sem komið er. "Ég held að ég hafi ekki séð ána eins mikla á þessum tíma sólarhrings [klukkan 10 í gær] og tel að það sé til komið vegna þess að lónið er að tæmast. Þetta er þó ekkert miðað við það sem áin getur orðið og það vantar marga metra upp á að hún nái þeirri vatnshæð.

Árið 1991 skvetti hún upp á brúardekkið hér við bæinn og ég hef aldrei séð hana eins mikla og þá," segir Guðmar en Brú II er efsti bærinn í Jökuldal og er tæplega 100 metra frá ánni.

Að sögn Guðmars, sem hefur búið á Brú II alla sína tíð, er aldrei hægt að stóla á Jöklu og hún á það til að breytast með skömmum fyrirvara. "Hún getur fallið um marga metra frá degi til dags og rokið jafnharðan upp aftur."