Ragnar Ísleifur Bragason, talsmaður Lorts, er fæddur 21. febrúar árið 1977 í Reykjavík. Hann stundar nú nám í leikhús-, kvikmynda- og sjónvarpsfræðum við háskólann í Utrecht, Hollandi. Hann hefur verið meðlimur í Lorti síðan 1999.
Ragnar Ísleifur Bragason, talsmaður Lorts, er fæddur 21. febrúar árið 1977 í Reykjavík. Hann stundar nú nám í leikhús-, kvikmynda- og sjónvarpsfræðum við háskólann í Utrecht, Hollandi. Hann hefur verið meðlimur í Lorti síðan 1999.

Lortur, hið fjölmenna og fjölkunnuga listafélag, heldur nú listahátíðina Trommusóló í annað skiptið í húsakynnum Klink og Bank. Hátíðin heitir fullu nafni Trommusóló B1-Lortur Biennale og koma saman ólíkir listamenn úr mörgum áttum. Til sýnis verða t.d. málverk, teikningar, vídeóverk, innsetningar, skúlptúrar og ljósmyndir af öllum stærðum og gerðum. Ragnar Ísleifur Bragason er talsmaður uppákomunnar.

Hvar var hátíðin fyrst haldin?

"Fyrir tveimur árum var var hún haldin á heimili eins Lortsmanna, Bjarna Massa, en í ár fer hún fram í Græna sal listsmiðjunnar Klink og Bank, Brautarholti 1 og einnig í öðrum sal þar sem kallast Rússland. Það eru margir sem taka þátt, svo sem myndlistarmennirnir Davíð Örn Halldórsson Hamar, Bjarni Massi, Kristján Loðmfjörð, Valgarður Bragason, Hulda Vilhjálmsdóttir, Ólafur Egill Egilsson, Claus Nielsen, Stephan Felguth, Gunnar Skerfjörð, Tinna Guðmundsdóttir, Þórarinn Hugleikur Dagsson, Katrín Erlingsdóttir, Pétur Már Gunnarsson, Ragnar Jónasson, Sólveig Einarsdóttir, Henrik Linnet, Jón Teitur Sigmundsson, Sylvía Dögg Halldórsdóttir, Þrándur Þórarinsson, Sólveig Alda Halldórsdóttir og Skapti Runólfsson. Tónleikar verða á föstudegi og laugardegi en klukkan 18.00 í kvöld spilar Lorts-bandið Forhúð forsetans. Síðar um kvöldið, frá klukkan 22.30, leika Útburðir, TZMP (The Zukakis Mondiano Project) og Helmes og Dalle. Á laugardaginn, frá klukkan 21.00, spila svo Amina, Skakkamanage og Kimono. Fyrr um daginn, frá klukkan 15.00, verða gjörningar í höndum Davíðs Þórs Jónssonar, Gunnlaugs Egilssonar og Baldurs Björnssonar. Í tilefni sýningarinnar verður gefin út vegleg sýningarskrá í eitt hundrað tölusettum eintökum og verður hún seld á 300 krónur við opnunina. Það er hið skák- og tónlistarvæna veitingahús Grand Rokk sem styrkir að fullu prentun þess bæklings."

Hátíðin er semsagt haldin á tveggja ára fresti?

"Já, það er hugmyndin. Það var mjög góð stemmning heima hjá Bjarna síðast þannig að við ákváðum að halda þessu gangandi."

Af hverju þetta heiti, Trommusóló?

"Við munum ekki hvernig þetta nafn kom til í upphafi. En segja má að heitið endurspegli þörf fólks til að taka sóló, hvernig og hvar svo sem það gerir það og gildir þá einu um hvaða listgrein er að ræða. En ég held að það sé óskynsamlegt að fara mikið út í táknræna merkingu þessa heitis. Trommusett er einfaldlega flottur hlutur. Svo verður opið trommusett á milli tónlistaratriða, þar sem hverjum sem er býðst að lemja húðirnar."

Hátíðin hefst á morgun klukkan 17.00 og mun standa fram í næstu viku.

www.lortur.org