Sumaróperan frumsýnir annað kvöld Happy End eftir Bertold Brecht og Kurt Weill í Íslensku óperunni.
Sumaróperan frumsýnir annað kvöld Happy End eftir Bertold Brecht og Kurt Weill í Íslensku óperunni. — Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"ÞAÐ var opinn dagur hjá Söngskólanum í Reykjavík og ég ákvað að skella mér. Ég fór í söngtíma hjá Garðari Cortes, sem gekk mjög vel, og að honum loknum stakk hann upp á því að ég færi í fullt nám við skólann.

"ÞAÐ var opinn dagur hjá Söngskólanum í Reykjavík og ég ákvað að skella mér. Ég fór í söngtíma hjá Garðari Cortes, sem gekk mjög vel, og að honum loknum stakk hann upp á því að ég færi í fullt nám við skólann. Á þeim tíma var enn boðið upp á að stunda söngnám með fram vinnu og ég gerði það, vann á Þjóðminjasafninu frá 8-16 og stundaði svo söngnám fram á kvöld." Þannig var upphafið að söngferli Guðmundar Jónssonar, bassasöngvara og fornleifafræðings, sem fer með eitt af aðalhlutverkunum í uppsetningu Sumaróperunnar á Happy End eftir Kurt Weill og Bertolt Brecht, sem verður frumsýnd í Íslensku óperunni annað kvöld kl. 20.

Tónlistina rak á fjörur Guðmundar fyrir löngu síðan, þegar hann gerðist félagi í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, átján ára gamall. Það voru líka gömul tengsl gegnum kórinn sem komu honum í Sumaróperuna, en Guðmundur og Hrólfur Sæmundsson, stofnandi Sumaróperunnar, tóku báðir þátt í uppfærslu kórsins og leikfélags skólans árið 1992 á Síðustu dögum Mahagonny-borgar, einnig úr smiðju Bertolts Brecht og Kurts Weill. "Við Hrólfur lékum tvo bófa í þeirri uppfærslu, sem var síðast þegar við sungum saman. Núna erum við aftur tveir bófar."

Úr drullugallanum í óperuna

Guðmundur stundaði mastersnám í fornleifafræði á árunum 1997-98 og hefur starfað víða um heim á því sviði síðan þá, en lauk í vor sem leið post-graduate diploma í söng frá Royal Academy of Music í London, eftir nám í Söngskólanum hér heima.

Fornleifafræðin skipar enn stóran sess í lífi Guðmundar - með honum í för er Katarina unnusta hans, sem einnig er fornleifafræðingur. "Við kynntumst í fornleifauppgreftri í Tyrklandi, í elstu borg sem vitað er um frá því um 7.500 f. Kr.," segir Guðmundur. Tilvonandi hjónin, sem hyggjast ganga í hjónaband í Serbíu næsta sumar þar sem Katrina er serbnesk, eru bæði að vinna í fornleifauppgreftrinum við Suðurgötu í Reykjavík í sumar. "Maður stekkur úr drullugallanum og upp í Íslensku óperuna þess á milli. Við verðum hér í sumar, en flytjum svo til Belgrad í Serbíu í haust, þar sem ég mun syngja í Þjóðaróperunni þar í eitt ár. Og við finnum ábyggilega einhverjar fornleifar til að fást við þar líka."

Guðmundur mun sækja söngtíma í Belgrad hjá Biserku Cvejic, gamalli óperustjörnu við Metropolitan og Vínaróperuna sem er komin yfir áttrætt en stundar enn kennslu. "Svo ætla ég í inntökupróf víða í Þýskalandi og Austurríki og Bretlandi og reyna að taka eitt ár í viðbót af námi í söng. Það er jú sagt að það taki átta ár að þjálfa upp óperusöngvara."

Pólitískt verk sem endar vel

Í Happy End fer Guðmundur með hlutverk Bill Cracker, mafíuforingja í Chicago þar sem óperan gerist. "Óperan fjallar um samskipti Hjálpræðishersins og mafíunnar og deilur þeirra á milli. Og svo endar þetta allt saman afskaplega, afskaplega vel," segir Guðmundur, enda gefur heitið það til kynna.

En í verkinu felst líka pólitísk ádeila eins og títt er um verk Bertolts Brecht og að mati Guðmundar á óperan Happy End sérlega vel við um þessar mundir. "Þegar Brecht skrifaði textann á sínum tíma beindist hann gegn breskri nýlendustefnu. Hana erum við enn að sjá í dag, bara á annan hátt þar sem efnahagslegar forsendur ráða ferðinni og bandarískur her gengur inn í Írak og til dæmis Serbíu fyrir nokkrum árum. Því á verkið fullt erindi um þessar mundir. Hrólfur Sæmundsson, sem þýddi verkið, heimfærir líka margt í textanum yfir á íslenskar aðstæður, þar kemur til dæmis Dabbi kóngur nokkuð við sögu."

Hann segir stykkið bæði skemmtilegt og fjörugt. "Í raun er Happy End eins og besta sápuópera, fólk verður ástfangið eins og hendi sé veifað. Tónlistin er líka frábær, í eins konar kabarettstíl þó hún sé ómstríð á köflum. Og inn á milli koma þessar fallegu ballöður, sem eru svo einkennandi fyrir Weill."

Leikinn texti er stór hluti af óperunni, og segir Guðmundur söngvarana þurfa að setja sig sérstaklega í stellingar. "Sönglega séð er verkið ekki jafn krefjandi eins og yfirleitt gerist í klassískri óperu í fullri lengd, en þó leynir tónlistin á sér og getur verið ansi snúin. Og svo reynir mikið á leikhæfileikana - maður er kannski enn meir í hlutverki leikarans. Öll tónlistin er órafmögnuð og við höfum afskaplega fjölhæfa sjö manna hljómsveit sem setur sterkan svip á uppfærsluna."

Það er Kolbrún Halldórsdóttir sem leikstýrir Happy End. "Hún hleypur út af þinginu og ég upp úr fornleifagreftrinum við Suðurgötu. Svo vill svo skemmtilega til að skrifstofur Sumaróperunnar eru þarna við Suðurgötu, við hliðina á Hjálpræðishernum, í gömlu spilavíti. Það er furðuleg en skemmtileg tilviljun."

Er óperan fornleifar?

Það liggur beint við að spyrja Guðmund, fornleifafræðinginn og óperusöngvarann upprennandi, hvort óperan geti kannski talist til fornleifa. "Staða óperunnar er mikið rædd í Bretlandi um þessar mundir. Bæði ensku og skosku þjóðaróperurnar eiga við mikinn fjárhagsvanda að stríða og þurfa að hugsa mikið um hvaða verkefni á að velja. Það hefur loðað dálítið við óperuna í Bretlandi að hún sé fyrir fólk sem á peninga, til dæmis getur verið erfitt fyrir námsmenn að sækja þar sýningar, þegar miðinn kostar allt upp í 300 pund. Vinsældirnar hafa líka dvínað og gengið erfiðlega að fylla óperuhúsin. En ég er samt sem áður sannfærður um að óperan eigi hlutverki að gegna innan þjóðfélagsins og muni gera það um ókomna tíð. Það er stöðugt verið að semja nýjar óperur og blanda saman stílum, söngleikjum og óperum, svo dæmi sé tekið. Ég held að það sé lítil hætta á að óperan verði talin til fornleifa, en til þess að það gerist ekki þurfa menn að vera vakandi og passa að ekki sé litið á hana sem heilagan hlut sem sé of fín til að hreyfa megi við henni."

Ef til vill er það það sem er að gerast í uppsetningu Sumaróperunnar á Happy End.

ingamaria@mbl.is