Hilmar Jónsson og Björn Hlynur Haraldsson fara yfir textann fyrir upptöku. Róbert Douglas fylgist íbygginn með.
Hilmar Jónsson og Björn Hlynur Haraldsson fara yfir textann fyrir upptöku. Róbert Douglas fylgist íbygginn með. — Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TÖKUR á "Strákunum okkar", nýrri mynd eftir Róbert Douglas, hófust í KR-heimilinu við Kaplaskjólsveg í gær. Myndin segir söguna af Óttari Þór, aðalstjörnunni í KR, sem veldur miklu írafári þegar hann kemur út úr skápnum á miðju leiktímabili.

TÖKUR á "Strákunum okkar", nýrri mynd eftir Róbert Douglas, hófust í KR-heimilinu við Kaplaskjólsveg í gær. Myndin segir söguna af Óttari Þór, aðalstjörnunni í KR, sem veldur miklu írafári þegar hann kemur út úr skápnum á miðju leiktímabili. Myndin verður frumsýnd á næsta ári.

"Hugmyndin var fyrst að gera almennilega fótboltamynd, góða mynd um fótbolta, þær hafa allar verið alveg hörmulegar hingað til," segir Róbert Douglas, leikstjóri myndarinnar, sem skrifaði handritið ásamt Jóni Atla Jónassyni. "Við ætluðum bara að gera toppfótboltamynd. Til að gera það þarf maður að setja inn einhvern annan vinkil á þetta en bara fótboltamann eða lið sem er að reyna að slá í gegn. Samkynhneigð er eitthvað sem hefur ekki verið fjallað mikið um í íslenskum bíómyndum fyrir utan heimildarmyndir. Þetta gæti verið fyrsta íslenska kvikmyndin sem er hægt að kalla "gay"-mynd. Ég vona samt að hún höfði til stærri hóps fólks, sem hún gerir kannski í gegnum fótboltann," segir Róbert.

Tökur munu standa í fimm vikur og verður tekið upp í Reykjavík og nágrenni. Róbert segir að síðustu sex mánuðir hafi farið í undirbúning fyrir tökur og handritið hafi verið um ár í vinnslu. Aðspurður segir hann að það hafi verið mjög góð tilfinning að koma á tökustað í gærmorgun. "Það er alltaf smá stress nóttina áður, en svo mætir maður og þá er þetta gaman."

Vill segja sögu úr íslenskum veruleika

Róbert hefur áður gert kvikmyndirnar "Íslenska drauminn" og "Maður eins og ég". Fótbolti kemur einnig nokkuð við sögu í Íslenska draumnum. "Íslenski draumurinn var ekki beint um fótbolta. Hún var um Ísland í rauninni, þjóðfélagið. Fótboltinn spilaði inn í þetta sem áhugamál hjá þeim og hún var meira um fótbolta séð heima í stofu á stóru sjónvarpi. En þessi mynd er íþróttamynd, hún er um fótbolta," segir Róbert. Sjálfur hefur leikstjórinn áhuga á fótbolta og heldur með Aftureldingu. "Ég ætti náttúrlega ekki að segja þetta hérna inni í musterinu, en ég er ekki KR-ingur," viðurkennir Róbert.

"Ég byrja aldrei á því að ég vilji tækla eitthvert efni og koma boðskap á framfæri. Þetta er meira þannig að maður lítur í kringum sig og vill segja nútímasögu úr okkar íslenska þjóðfélagi og íslenskum veruleika. Það kemur alltaf einhver boðskapur í gegn, en það er ekki það sem maður leitast við frá byrjun, því þá gæti ég kallað mig pólitískan kvikmyndagerðarmann sem ég held að ég sé ekki. Boðskapurinn kemur örugglega í gegn, sem er umburðarlyndi og að lifa í sátt og samlyndi," segir Róbert.

Á morgun verður tökulið myndarinnar í miðbænum þar sem atriði sem gerist á "Gay-pride"-hátíðinni verður tekið upp. "Við erum hluti af skrúðgöngunni og vonum bara að þetta gangi upp. Sem betur fer eru engar leiknar senur, heldur tökum við bara upp skrúðgönguna. Þá á þetta að ganga upp. Þetta á að vera held ég bara skemmtilegt," segir Róbert.