— Ljósmynd/Guðveig Ólafsdóttir
Grindavík | Keppt var í Bikarkeppni Bridgesambands Íslands í fiskvinnsluhúsinu Þrótti í Grindavík á dögunum, og er talið að þetta sé í fyrsta skipti sem keppt er í bridsmóti af þessu tagi í Grindavík.

Grindavík | Keppt var í Bikarkeppni Bridgesambands Íslands í fiskvinnsluhúsinu Þrótti í Grindavík á dögunum, og er talið að þetta sé í fyrsta skipti sem keppt er í bridsmóti af þessu tagi í Grindavík.

Gunnlaugur Sævarsson skipulagði leikinn, sem var á milli sveitar hans og annars Suðurnesjaliðs. Leikurinn var hluti af þriðju umferð bikarkeppninnar. Umferðirnar fara þannig fram að sveitir eru dregnar saman og hafa svo ákveðinn dagafjölda til að spila, og ákveður sá sem á heimaleik hvar er spilað.

"Ætli þetta sé ekki fyrsti svona leikurinn sem er haldinn hér í Grindavík í sambandi við Íslandsmótið í brids," segir Gunnlaugur. "Þetta var nú bara þannig að ég var skráður fyrir sveitinni í þetta sinn og tók þá ákvörðun að gera þetta í Grindavík fyrst ég hafði þessa fínu aðstöðu." Gunnlaugur er sonarsonur Þórarins Ólafssonar, sem á fiskvinnsluhúsið Þrótt, og lánaði Þórarinn efri hæð hússins með ánægju.

Öruggur heimasigur

Alls voru átta manns, fjórir úr hverri sveit, sem spiluðu þetta kvöld. Auk Gunnlaugs voru í sveit hans Símon Símonarson, Karl G. Karlsson og Hermann Friðriksson. Á móti þeim kepptu Svala Kristín Pálsdóttir, Bryndís Þorsteinsdóttir, Ólöf Þorsteinsdóttir og María Haraldsdóttir. Spurður um úrslitin úr spilamennskunni segir Gunnlaugur fljótlegt frá því að segja, sveit hans hafi unnið öruggan sigur. Það er því aldrei að vita nema leikirnir í bikarkeppninni í Grindavík verði fleiri.

Svala Kristín Pálsdóttir, sem lék í sveitinni á móti sveit Gunnlaugs í bikarleiknum, segir aðstöðuna hafa verið prýðilega. "Aðstaðan þarna var mjög góð," segir Svala. "Það var ekki gaman að tapa svona stórt, en það var bara gaman að spila í þessu húsi."

Svala segir það ekki óvenjulegt í bikarleikjum í Bridsmóti að leikið sé á framandi stöðum. "Þeir sem eiga heimaleikinn ráða spilasal, þannig að við þurfum að vera við öllu búin."