Á morgun fara fram í sjötta sinn Gay Pride-hátíðahöld í miðborg Reykjavíkur. Gay Pride, eða Hinsegin dagar, eru ætlaðir til að gleðjast og sýna samstöðu þjóðarinnar með hommum, lesbíum og tvíkynhneigðum einstaklingum samfélagsins.

Á morgun fara fram í sjötta sinn Gay Pride-hátíðahöld í miðborg Reykjavíkur. Gay Pride, eða Hinsegin dagar, eru ætlaðir til að gleðjast og sýna samstöðu þjóðarinnar með hommum, lesbíum og tvíkynhneigðum einstaklingum samfélagsins. Það eru samtökin '78 - Félag homma og lesbía á Íslandi, Konur með konum, MSC Ísland, Félag sam- og tvíkynhneigðra stúdenta og Jákvæður hópur homma sem standa að hátíðinni með stuðningi Reykjavíkurborgar.

Hátíðahöldin verða glæsilegri með hverju árinu sem líður. Innlendir og erlendir áhorfendur og þátttakendur skipta tugum þúsunda og sannkölluð karnival-stemning ríkir í miðborginni.

Réttindabarátta samkynhneigðra er mér afar hugleikin. Það er mikilvægt hlutverk okkar allra að styðja heilshugar við baráttu fólks sem berst fyrir því að fá að vera það sjálft. Þetta er barátta fyrir sjálfsögðum mannréttindum sem ætti fyrir löngu að vera yfirstaðin.

Það getur vel verið að það sé einfeldningslegt af mér en ég verð alltaf jafn hissa þegar ég heyri fólk mótmæla því að samkynhneigðir ættleiði börn eða fái að gifta sig í kirkju. Mér finnst alveg stórfurðulegt að í nútíma samfélagi séu enn til einstaklingar sem halda því fram að samkynhneigðir séu á einhvern hátt verr til þess fallnir að ala upp börn eða ganga upp að altarinu. Öll rök með þessu banni falla um sjálf sig. Kirkjunnar menn vitna í Biblíuna, velja úr klausuna sem segir að Guð telji það ónáttúrulegt að leggjast með einstaklingi af sama kyni. Hvers vegna tökum við þá ekki hver einustu lög upp úr trúarriti voru og gerum þau að lögum? Hver velur hver þessara laga eiga við og hver ekki?

Séra Ragnar Fjalar Lárusson sagði um samkynhneigð í Morgunblaðinu árið 1999:

"Ég vil ekki nota orðið "syndsamleg" um þessa kennd, heldur er hér um að ræða einhverskonar brenglun, sjúkdóm, sem viðkomandi getur ekki ráðið við. Kristin kirkja mun aldrei fordæma neinn fyrir þann sjúkdóm sem hann gengur með."

Þessi ummæli dæma sig sjálf og ætla ég ekki að fjölyrða um þessa sjúkdómsgreiningu á samkynhneigð. Sé þetta aftur á móti raunin, að vegna "sjúkdóms" síns geti samkynhneigðir ekki hlotið hjónavígslu í kirkju, má þá ekki ræða það hvernig krabbameinssjúkum, geðveikum og öðrum sem ekki ganga heilir til skógar ætti að vera tekið í sömu aðstæðum?

Réttindabarátta samkynhneigðra kemur okkur öllum við, hvort sem við erum sam-, tví- eða gagnkynhneigð, það skiptir ekki máli.

Fjölmennum í bæinn á morgun og styðjum við bakið á baráttunni um hin sjálfsögðu mannréttindi hvers manns.