AFKOMA sveitarfélaga á árinu 2003 var lakari en árið 2002, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum úr uppgjöri 52 sveitarfélaga.

AFKOMA sveitarfélaga á árinu 2003 var lakari en árið 2002, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum úr uppgjöri 52 sveitarfélaga. Heildarafkoma þessara sveitarfélaga, hvar 92% landsmanna búa, var neikvæð um 2,6 milljarða króna í fyrra en jákvæð um 700 milljónir árið á undan.

Að sögn Gunnlaugs A. Júlíussonar, sviðsstjóra hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, er óhagstæð gengisþróun helsta ástæða lakari afkomu sveitarfélaganna. "Gengið var einfaldlega hagfelldara á árinu 2002 heldur en 2003. Stóru sveitarfélögin eru mörg farin að taka erlend lán í staðinn fyrir innlend. Í kjölfarið skiptir gengi krónunnar meira máli fyrir afkomuna."

Tekjur sveitarfélaganna hækkuðu um tæp 6% milli ára, úr 87 milljörðum króna 2002 í 92 milljarða árið 2003. Gjöld hækkuðu einnig á sama tímabili, fóru úr 92 milljörðum 2002 í 97 milljarða 2003, eða sem nemur tæplega 5% aukningu.

Lægri tekjur af fjármunum, vegna óhagstæðra gengisbreytinga, valda þannig lakari afkomu þrátt fyrir að tekjur hafi aukist meira en gjöld á milli ára. Árið 2002 námu fjármunatekjur um 5,1 milljarði en einungis 1,6 milljörðum á árinu 2003.

Handbært fé frá rekstri var lægra í fyrra en árið á undan, eða 4,5 milljarðar króna í stað 6,6 milljarða 2002.

Launakostnaður lækkar

Launakostnaður sveitarfélaganna 52 sem bráðabirgðaniðurstaðan byggist á er lægri í fyrra en árið á undan, sé hann skoðaður sem hlutfall af tekjum. Árið 2002 voru laun og launatengd gjöld 58,7% af tekjum sveitarfélaganna en 57,1% í fyrra. Áætlun fyrir árið 2004 gerir ráð fyrir að þetta hlutfall lækki í 52,8%.

Yfir 80% tekna sveitarfélaga eru skatttekjur. Það hlutfall var 81,9% í fyrra en 83,3% árið þar á undan. Ráðgert er að á þessu ári verði 82,5% tekna sveitarfélaga skatttekjur.

Millistór sveitarfélög, eða þau sem eru með frá 1.000-5.000 íbúa, hafa lakasta afkomu að sögn Gunnlaugs.

Áætlun fyrir árið 2004 um afkomu sveitarfélaganna gerir ráð fyrir 99,2 milljörðum króna í tekjur á árinu, sem yrði um 7,5% hækkun frá tekjum síðasta árs. Áætlað er að gjöld aukist um 2% og verði 98,9 milljarðar í ár. Gunnlaugur segir þó að taka beri áætlunum fyrir afkomu þessa árs með varúð, þar sem kjarasamningar s.s. við kennara og leikskólakennara séu enn ófrágengnir.

Eignir sveitarfélaganna voru 204 milljarðar í fyrra en 199 milljarðar króna árið á undan og hækkuðu um 2,6%. Gert er ráð fyrir að þær aukist í 215 milljarða á þessu ári.

Skuldir jukust um 15 milljarða

Skuldir án skuldbindinga hækkuðu úr 72,5 milljörðum árið 2002 í 78,1 milljarð í fyrra, eða um 7,8%.

Séu lífeyrisskuldbindingar teknar með hækkuðu skuldir úr 108,3 milljörðum 2002 í 123,3 milljarða í fyrra. Hækkunin nemur 15 milljörðum króna eða 13,9% milli áranna. Á þessu ári er gert ráð fyrir að skuldir lækki um tæpa tvo milljarða frá því í fyrra.