Það hefur stór hópur leikmanna æft vel í sumar og að sjálfsögðu fá þeir að spreyta sig í þessum leikjum. Sumir fá að spila mikið og aðrir minna. Eins og gengur og gerist."
Aðspurður um hvort miklar breytingar hefðu átt sér stað á leikstíl íslenska liðsins í sumar frá því að Sigurður tók við af Friðriki Inga Rúnarssyni sagði þjálfarinn að hraðinn væri aðalsmerki liðsins.
"Við munum reyna að leika hratt í sókninni og opna varnir andstæðingana með því að keyra upp að körfunni og sjá alla möguleikana sem eru í stöðunni. Í vörninni ætlum við að leggja mikið á okkur, með því að pressa og leika ýmis afbrigði svæðisvarna í bland við maður á mann vörn."
Sigurði stóð ekki til boða að velja Jón Arnór Stefánsson leikmann Dallas Mavericks í þessa leiki og að auki eru þeir Logi Gunnarsson, Brenton Birmingham og Damon Johnson meiddir.
Hinsvegar sagði Hrannar Hólm formaður landsliðsnefndar KKÍ í gær að búið væri að ganga frá tryggingamálum hvað varðar undankeppni EM og getur Jón Arnór leikið þá leiki. Það er tryggingafyrirtækið VÍS sem hefur axlað þá ábyrgð en það á eftir að ganga frá smáatriðum í þeim málum, sagði Hrannar.
"Það þýðir ekkert að vera spá í hverjir eru ekki með. Við stillum upp okkar sterkasta liði þá stundina og getum ekkert verið að horfa á það hverjir eru ekki með okkur. Það sama á við um Pólverjana, eflaust vantar einhverja leikmenn í þeirra lið," sagði Sigurður.
Einn leikmaður pólska liðsins er á mála hjá NBA-liði en það er Cezary Trybanski sem lék með New York Knicks, Phoenix Suns og Memphis Grizzlies.
Trybanski var í gær skipt til Chicago Bulls en hann er 2,15 m á hæð.
Í lok ágústmánaðar mun íslenska liðið leika gegn Austurríkismönnum áður en liðið leikur á þriggja landa móti gegn Makedóníu, Ungverjum og Pólverjum. Að því loknu tekur alvaran við er liðið leikur í Danmörku í fyrsta leik í undankeppni Evrópumóts landsliða en sá leikur fer fram 10. september. Azerbaídsjan og Rúmenía leika síðan á Íslandi 15. og 18. september. Ekki er útilokað að Azerbaídsjan dragi lið sitt úr keppni vegna fjárhagsvandræða en ekki hefur borist formlegt skeyti frá FIBA um að liðið hafi gert slíkt.
Páll Axel Vilbergsson fyrirliði íslenska liðsins sagði að nú væri tími til að koma landsliðinu á blað. "Það eru skemmtileg verkefni framundan. Sigurður hefur lagt áherslu á að finna leiðir til þess að vinna leiki. Okkur hefur gengið ágætlega að ná að bæta okkar leik í sumar og leikirnir gegn Pólverjum verða í raun próf fyrir okkur alla. Við gerum ráð fyrir því að þeir séu sterkari en við getum alveg lagt þá að velli," sagði Páll Axel.
Leikurinn í kvöld hefst kl. 20, en á morgun verður leikið í Stykkishólmi kl. 16 og á sunnudag í Keflavík kl. 20.
Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson