Flóðið í Jökulsá á Dal, Jöklu, jókst á ný síðdegis í gær og fram á kvöld. Vatnsborðið fór hæst í rúma 479 metra yfir sjó sem er einum og hálfum metra hærra en í fyrrakvöld þegar nokkrar skemmdir urðu á brúnni á vinnusvæðinu, og er flóðið náði hámarki í gærkvöldi var brúin komin á bólakaf, aðeins glitti í umferðarskilti við hana. Stórvirkar vinnuvélar unnu við það af kappi í gær að hækka varnarstífluna enn meira og var ákveðið á samráðsfundi í gærkvöldi að láta það duga í bili að fara með hana upp í 490 metra hæð yfir sjávarmáli. Vinna við fremsta hluta aðalstíflunnar lá niðri í gær þar sem vatn hafði lekið í gegnum varnarstífluna og vatnshæðin innan við hana fór í um fjóra metra. Höfðu dælur ekki undan að dæla vatni frá táveggnum svonefnda og var byrjað í gærkvöldi að útvega öflugri dælubúnað.
Vegna skemmda á handriðum og gólfi brúarinnar við Kárahnjúka í fyrrakvöld var ákveðið strax í gærmorgun að loka henni fyrir allri almennri umferð næstu daga. Ferðamenn úr Fljótsdal sem ætla sér að útssýnisstaðnum á Sandfelli, þar sem sést yfir framkvæmdirnar við Kárahnjúka, þurfa því að snúa sömu leið til baka en komast ekki yfir Jöklu og þaðan niður í Jökuldal. Verktakar á svæðinu notast hins vegar við varnarstífluna til að komast frá aðalbúðunum og niður í Fljótsdal, líkt og þeir hafa reyndar gert í sumar, auk þess að nota leiðina niður í Jökuldal. Hún mun þó vera torsótt fyrir venjulega fólksbíla, samkvæmt upplýsingum blaðsins.
Unnið var að viðgerð brúarinnar í gær og var dekk hennar, sem er úr timbri, fest við stálvirki til að fyrirbyggja að brúin færi af stað í flóðunum í gærkvöldi. Einnig var möl og grjóti ekið út á brúargólfið til að það flyti ekki upp og handriðin voru fjarlægð til að minnka mótstöðu brúarinnar. Þá var háspennustrengur undir brúnni losaður frá og hann látinn fljóta laus neðan við hana þar til hann verður strengdur yfir á öðrum stað.
Töluvert lón hefur myndast fyrir framan varnarstífluna og hjáveitugöngin sem gerð voru til að veita Jöklu tæpra 900 metra leið framhjá stíflustæðunum. Fyrirstaða virðist vera í öðrum göngunum en af hvaða völdum hún er verður ekki hægt að kanna fyrr en sjatnað hefur í ánni. Á vef Kárahnjúkavirkjunar segir að líkleg skýring sé að grjót hafi hrunið í göngunum eða nokkurs konar lofttregða myndast sem hindri rennsli vatnsins út fyrir neðan stíflurnar.