RÍMNASTRÍÐ 2004 verður haldið á Gauk á Stöng í kvöld en keppnin er á vegum útvarpsþáttarins Kronik og Popptíví. Húsið verður opnað klukkan 21 en bein útsending verður frá keppninni á Popptíví frá klukkan 23 til miðnættis. Þetta er í þriðja sinn sem keppnin er haldin en einnig koma fram hljómsveitirnar O.N.E, Antlew/Maximum og DJ B-Ruff.
Dregið er í riðla þar sem tveir keppendur mætast og reyna að koma höggi hvor á annan með rímum. Dómarar og áhorfendur skera svo úr um hver kemst áfram í næstu umferð. Þannig heldur þetta áfram þar til einn stendur eftir sem rímnastríðsmeistarinn 2004 og kannast áreiðanlega einhverjir við þetta fyrirkomulag úr kvikmyndinni 8 Mile með Eminem.
Í dómnefnd þetta árið eru Bent úr xxx Rottweiler og Magsee úr Antlew/Maximum (áður í Subterranean).
Rímnastríðsmeistarinn 2003 er Kjartan Atli Kjartansson, KJ úr Bæjarins bestu. Hann ætlar að taka þátt í keppninni í kvöld. "Það er alltaf takmarkið að vinna," segir hann aðspurður, "en ég er samt að gera þetta til að hafa gaman af þessu. Sigur er ekki aðalmálið."
KJ segir að ákveðið hugarástand fari í gang um leið og mætt er á staðinn á keppniskvöldinu. "Þegar kvöldið byrjar fer hugurinn strax af stað og maður fer að reyna að búa til línur úr öllu sem maður sér."
Ekkert persónulegt
Úrslitarimman í fyrra var á milli KJ og Dóra DNA en þeir eru báðir í Bæjarins bestu og segir KJ það geta verið erfitt að mæta nákomnum. "En ég tek ekkert persónulega sem hann segir og hann tekur það vonandi ekki persónulega sem ég segi."Æfingin skapar meistarann í þessu eins og öðru. "Ég hef ekki æft mig í þessu lengi því ég ætlaði fyrst ekki að taka þátt. En núna hef ég tekið nokkrum sinnum þátt í svona keppni, þetta venst, það er erfiðast að taka þátt í fyrsta sinn."
Keppnin snýst um að skjóta á keppinautinn. "Bestu línurnar eru alltaf spontant og ná að fanga andrúmsloftið sem er á staðnum og þú reynir að snúa því þér í hag," segir hann. Jafnan er kastað upp á hvor byrjar og takast rappararnir á í tvisvar sinnum 30 sekúndur, segir KJ.
Hann segir áhorfendurna skipta miklu máli og að þeir eigi að fá að ráða úrslitum. "Mér finnst svona keppni snúast um að ef fólkið skemmti sér og ef því finnst einhver hafa unnið finnst mér það eiga að vera svo. Þetta snýst um að skemmta fólki," segir KJ og klykkir út með því segja: "Þetta er hæsta listform íslenskrar menningar."
Veglegur vinningur er í boði fyrir rímnastríðsmeistarann í ár, utanlandsferð fyrir tvo til London ásamt hótelgistingu.
Rímnastríð 2004 á Gauknum kl. 21-00 í kvöld. Miðaverð 800 krónur og er 18 ára aldurstakmark. |
ingarun@mbl.is