* ÞÝSKI knattspyrnumaðurinn Stefan Effenberg segir við þýska dagblaðið Bild að hann hafi hug á því að taka að sér þjálfun í þýsku úrvalsdeildinni í nánustu framtíð.

* ÞÝSKI knattspyrnumaðurinn Stefan Effenberg segir við þýska dagblaðið Bild að hann hafi hug á því að taka að sér þjálfun í þýsku úrvalsdeildinni í nánustu framtíð. Effenberg er 35 ára gamall og hefur leikið með Gladbach , Bayern München og Wolsburg í heimalandi sínu auk þess sem hann var um tíma hjá Fiorentina á Ítalíu.

* Í VETUR hefur Effenberg leikið með liði í Katar. "Ég mun ekki útiloka þann möguleika að taka að mér þjálfun í efstu deild í Þýskalandi. Og það gæti gerst árið 2006. Ottmar Hitzfeld, fyrrum þjálfari minn frá Bayern München, sagði eitt sinn að ég myndi líklega enda í því hlutverki að öskra skipanir úr varamannaskýlinu sem þjálfari. Hann hefur oftast rétt fyrir sér," segir Effenberg sem lék 35 landsleiki á sínum tíma.

* FRANSKI varnarmaðurinn Gregory Vignal mun leika með skoska úrvalsdeildarliðinu Glasgow Rangers á næstu leiktíð en hann verður þar á lánssamningi frá enska úrvalsdeildarliðinu Liverpool . Hann verður því til taks þegar Rangers leikur gegn CSKA Moskvu í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Vignal er 22 ára gamall og hefur verið í herbúðum Liverpool frá árinu 2000 er hann var keyptur frá franska liðinu Montpellier . Á síðustu leiktíð var hann hjá Espanyol á Spáni sem lánsmaður.

* EINKENNILEGUR vírus hefur tekið sér bólfestu í herbúðum Newcastle . Alls fjórir leikmenn liðsins hafa fengið sýkingu í auga af völdum þessa víruss og fleiri gætu verið sýktir. Hefur félagið brugðið á það ráð að loka æfingaaðstöðu liðsins tímabundið.

* STEED Malbranque , miðjumaðurinn franski hjá Fulham , mun missa af fyrstu leikjum tímabilsins vegna meiðsla. Þá mun framherjinn Steve Marlet verða áfram í láni hjá franska liðinu Marseille en hann var þar einnig á síðasta leiktímabili.

* BANDARÍSKA NBA-liðið Washington Wizards hefur samið við framherjann Samaki Walker sem hefur leikið með fjórum liðum á átta ára ferli sínum í deildinni. Walker hefur leikið með Dallas , San Antonio , Los Angeles Lakers og Miami , en hann var í liði Lakers sem vann deildina árið 2002.

* NBA -meistaraliðið Detroit Pistons hefur fengið framherjann Derrick Coleman og Amal McCaskill frá Philadelphia 76'ers í skiptum fyrir framherjann Corliss Williamson . Joe Dumars, framkvæmdastjóri Pistons, segir að Larry Brown, þjálfari liðsins, hafi viljað frá Coleman til liðsins en Brown þekkir leikmanninn vel eftir veru sína sem þjálfari 76'ers .

* BROTTHVARF Williamsons gerir Pistons kleift að leita að enn frekari liðstyrk fyrir næsta vetur þar sem launaútgjöld félagsins verða ekki eins há enda var Williamson búinn að semja um 1,3 milljarða kr. í laun fyrir næstu þrjú ár.