Sverrir Björnsson á Viggó SI lagði í fyrrakvöld tvö síldarnet á Hellunni við Siglufjörð sem hann vitjaði í gærmorgun.
Sverrir Björnsson á Viggó SI lagði í fyrrakvöld tvö síldarnet á Hellunni við Siglufjörð sem hann vitjaði í gærmorgun. — Morgunblaðið/Steingrímur Kristin
VAÐANDI síld í stórum flekkjum er nú að finna fyrir Norðurlandi, annars vegar við Gjögur og yzt í Eyjafirði og í Siglufirði og hinsvegar á Haganesdýpi og Fljótagrunni.

VAÐANDI síld í stórum flekkjum er nú að finna fyrir Norðurlandi, annars vegar við Gjögur og yzt í Eyjafirði og í Siglufirði og hinsvegar á Haganesdýpi og Fljótagrunni. Smábátasjómenn nyrðra segjast ekki hafa séð svona mikið af síld árum saman en þeir eru að fá hana á handfærin í nokkrum mæli.

Vigfús Jóhannsson frá Dalvík var að koma úr róðri í fyrrakvöld á báti sínum Árna G ES, þegar hann byrjaði að sigla í gegnum stóra flekki af vaðandi síld. "Síldin kraumaði í yfirborðinu og lá greinilega í stórum flekkjum af svörtu smásíli. Það hefur ekki sézt svona vaðandi síld á þessum slóðum í mörg herrans ár. Það var komið kvöld og farið að skyggja en ég keyrði í gegnum síldarvöðuna á 10 mílna hraða í á annan klukkutíma. Það var ekki fyrr en ég var að koma að Siglufirði sem ég hætti að sjá þetta, en það gæti líka verið vegna þess að það var farið að skyggja. Ég tók nokkrar síldar og þetta er stór en mjög mögur síld," segir Vigfús.

Íslenzk sumargotssíld

Sveinn Sveinbjörnsson fiskifræðingur segir að það sé jákvætt að svona mikið sjáist af vaðandi síld. Hafrannsóknastofnun hafi ekki verið með neinar rannsóknir á síld fyrir Norðurlandi í mjög mörg ár, en það sé engu að síður ljóst að menn hafi ekki orðið varir við svona mikið af síld í mörg ár.

"Við erum að bíða eftir sýnum af síldinni, en mér þykir líklegast að um sé að ræða íslenzka sumargotssíld, eða Suðurlandssíldina svokölluðu," segir Sveinn.

Sverrir Björnsson á Viggó SI lagði í fyrrakvöld tvö síldarnet á Hellunni við Siglufjörð, og vitjaði í gærmorgun, hann kom svo laust fyrir hádegið í gær með 200 kg úr þessum róðri. Þetta er að mestu mjög falleg síld allt að 30-35 sm. Hannes Baldvinsson, gamalreyndur síldarmatsmaður frá gömlu góðu árunum, skoðaði eina síldina sem var full af sandsílum og bar síldin greinileg merki um vaxandi þroska og kominn var í hana "mör".

Tvö ætistímabil

Íslenska sumargotssíldin hrygnir um mitt sumar fyrir Suðurlandi og aðeins norður með því, bæði fyrir austan og vestan og heldur síðan í ætisgöngur norður fyrir land. Hún hefur tvö ætistímabil, frá því í apríl - maí og framundir hrygningu og svo að hrygningu lokinni og fram á haust. Hún er því orðin vel feit á haustin, þegar síldveiðar hefjast. Norsk-íslenzka síldin hrygnir hins vegar á vorin og býr því við samfellt ætistímabil frá vori og fram á haust. Síldin lifir á ýmiskonar átu og síli, sem er mikið um á sumrin. Á veturna hefur síldin svo vetursetu í köldum sjó og hefur hægt um sig til að draga úr efnaskiptum svo hún lifi sem lengst á fituforðanum, því þá er lítið um æti.