MEGINHLUTVERK raftækja er haft til hliðsjónar þegar þeim er raðað í tollflokka, að sögn Stefáns Bjargmundssonar deildarsérfræðings hjá Tollstjóranum í Reykjavík.

MEGINHLUTVERK raftækja er haft til hliðsjónar þegar þeim er raðað í tollflokka, að sögn Stefáns Bjargmundssonar deildarsérfræðings hjá Tollstjóranum í Reykjavík. Í viðskiptablaði Morgunblaðsins í gær var sagt frá því að innflytjendur Apple iPod tækja væru ósáttir við það hvar vörunni væri skipað í tollflokk og sögðu iPod frekar eiga heima með handtölvum en upptöku- og afspilunartækjum, eins og nú.

"Það er um margt erfiðara að raða sumum raftækjum í tollflokka en áður, nú þegar þróunin virðist vera í þá átt að hlutverk þeirra renni að einhverju leyti saman," segir Stefán. Hann segir þó enn vera það skýran mun á tækjum að hægt sé að skipa þeim í flokka, þótt sömu aðgerðir megi framkvæma á ólíkum tækjum.

Tekur Stefán sem dæmi að þótt tölvukubbar séu í flestum raftækjum nú til dags séu fæst þeirra flokkuð sem tölvur í tollskrá. "Sími hefur minniskubb og örgjörva en telst ekki vera tölva, margir farsímar hafa myndavélar en eru ekki flokkaðir sem myndavélar, sumir símar geta tekið upp hljóð en teljast ekki upptökutæki. Meginhlutverk þeirra er fjarskiptatengt og eftir því er farið við tollflokkun." Segir Stefán það sama eiga við um iPod, sem hefur harðan disk og örgjörva, en hann falli ekki í tollflokk með handtölvum vegna þess að meginhlutverk hans sé afspilun tónlistar. Stefán segir að við mat á meginhlutverki tækis sé höfð hliðsjón af hönnun þess og markaðssetningu.

Í samræmi við alþjóðlega framkvæmd

Stefán segir að hönnun iPod sé þannig að notendaviðmótið gefi aðeins færi á að nálgast þær upplýsingar sem í tækinu eru - ekki sé hægt að flytja upplýsingar inn í tækið í gegnum innsláttarborð, líkt og á handtölvu. "Í Evrópu er iPod flokkaður sem stafrænt upptökutæki, og liggur fyrir tveggja ára gamall úrskurður Evrópusambandsins þar sem þessi tollflokkun á iPod er staðfest. Ísland og Evrópusambandið eru aðilar að sömu alþjóðasamningunum á þessu sviði og því gilda sömu, eða svipuð, sjónarmið við tollflokkun innfluttra vara hér á landi."

Samkvæmt upplýsingum frá Tölvudreifingu hf, sem flytur inn Creative spilara, og eru af flestum taldir sambærilegir við iPod, þeir settir í sama tollflokk og það.