Í KJÖLFAR frétta af óánægju skemmtibátaeigenda með háan kostnað vegna skoðana á öryggisbúnaði og gagnrýni þeirra á að hér gildi mun stífari reglur en annars staðar, hefur samgönguráðuneytið sent Siglingastofnun bréf þar sem mælst er til þess að stofnunin kanni hvort rétt sé að endurskoða reglurnar.
Ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins segir hugsanlegt að reglurnar verði bundnar farsviði bátanna, þ.e. hvar þeir eru notaðir.
Ný reglugerð um skoðanir á skipum og búnaði þeirra tók gildi í árslok 2003 en reglugerð um björgunar- og öryggisbúnað skipa er tíu ára gömul.
Réttmæti ekki kannað
Kjarninn í þeirri gagnrýni sem skemmtibátaeigendur hafa sett fram er að reglugerðin taki ekkert tillit til þess að skemmtibátar séu notaðir við allt aðrar aðstæður en fiskibátar og fiskiskip. Samt sem áður gildi næstum því sömu reglur um alla þessa bátaflokka. Afleiðingin sé m.a. sú að skemmtibátaeigendur þurfi að reiða tugþúsundir af hendi árlega vegna alls kyns skoðana. Þeim gremst að á sama tíma treysti yfirvöld á Norðurlöndunum skemmtibátaeigendum að mestu leyti til að huga sjálfir að sínu eigin öryggi.Margir hafa fengið sig fullsadda á þessu og "flaggað" bátum sínum út.
Finnur Torfi Stefánsson tónskáld, fyrrv. alþingismaður og gamalreyndur skútukappi, hefur verið einna ötulastur við að gagnrýna núgildandi reglur. Í athugasemd frá honum sem birtist í Morgunblaðinu á miðvikudag segir m.a. að samgönguráðuneytið hafi ekkert kannað við hvaða aðstæður skemmtibátar séu notaðir og yfirleitt ekki sýnt þessum málum nokkurn áhuga, nema þá í þeim tilgangi að leggja gjöld á eigendur bátanna. Stjórnsýsla ráðuneytisins fari fram að óathuguðu máli.
Unnið eftir tillögum siglingaráðs
Þessu hafnar Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins, og segir að ráðuneytið hafi unnið málið eftir tillögu Siglingastofnunar og eftir umsögn siglingaráðs. Niðurstaðan hafi verið sú að ekki væri ástæða til að slaka á öryggiskröfum fyrir skemmtibáta. Einnig hafi ráðuneytið fundað með fulltrúa Snarfara áður en reglurnar voru settar. Ragnhildur minnir á að yfirleitt sé umræða um öryggismál með þeim hætti að fólk vilji herða öryggiskröfur en ekki slaka á þeim. Þetta hafi komið mjög skýrt fram á fundum með sjómönnum um öryggismál þeirra. Hún nefnir sem dæmi að við undirbúning að nýrri reglugerð um skoðun öryggisbúnaðar hafi verið lagt til að hann yrði skoðaður annað hvert ár. Sjómannasamtökin hafi mótmælt því harðlega og ekki tekið það í mál. Niðurstaðan hafi því orðið sú að búnaðurinn er skoðaður árlega. "Við leggjum mikla áherslu á öryggismálin og við teljum að mannslíf á skemmtibátum sé jafn mikils virði og mannslíf á fiskiskipum," segir Ragnhildur. "Það kemur okkur á óvart að sjómenn, sem eigendur skemmtibáta vissulega eru, vilji draga úr öryggiskröfum vegna kostnaðar."Aðspurð hvort hún líti svo á að skemmtibátaeigendur og sjómenn sem eru launþegar á fiskiskipum séu í sömu aðstöðu til að gæta að öryggi sínu, segir hún að sjómenn hafi jafnan verið hörðustu baráttumenn fyrir auknu öryggi. Þá hafi smábátasjómenn, sem yfirleitt séu eigendur bátanna, sætt sig við kostnaðinn sem fylgi auknum öryggiskröfum.
Ragnhildur bendir á að ekki gildi alveg sömu reglur um skemmtibáta og fiskibáta. Nýlega hafi reglum t.d. verið breytt á þann veg að fiskibátar undir átta metrum með sumarhaffæri þurfa nú að hafa björgunarbáta en þessi regla gildi á hinn bóginn ekki um skemmtibáta.
Töldu óeiningu meðal skemmtibátaeigenda
Samkvæmt lögum á siglingaráð að veita umsagnir um siglinga- og vitamál. Í ráðinu sitja einkum fulltrúar hagsmunaaðila í siglingum og sjávarútvegi auk fulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar.Ragnhildur segir að drög að reglugerðinni hafi verið send Snarfara, Siglingafélagi Reykjavíkur og Siglingasambandi Íslands.
Aðeins barst umsögn frá Snarfara þar sem reglunum var mótmælt og þess krafist að þær tækju mið af reglum í nágrannalöndunum. Bent var á að á Norðurlöndunum væri skemmtibátaeigendum í sjálfsvald sett hvort þeir fengju haffærisskírteini eður ei.
Ragnhildur segir að í siglingaráði hafi komið fram að mjög skiptar skoðanir væru meðal sportbátaeigenda um skoðunarskyldu. Í bókun ráðsins komi fram að menn hafi komið að máli við fulltrúa í ráðinu og sagt að umsögn Snarfara stafaði ekki frá stjórn félagsins. Aðspurð segist hún ekki vita til þess að frekari könnun hafi farið fram á viðhorfum skemmtibátaeigenda en umsögn þessara aðila. Þá var fulltrúi Snarfara ekki kallaður á fund ráðsins en formaður ráðsins ræddi við Finn Torfa.
Í Morgunblaðinu á þriðjudag var haft eftir fulltrúa í samgönguráðuneytinu að skemmtibátar á sumarhaffæri þyrftu ekki björgunarbáta. Þetta á einungis við um báta undir átta metrum og segir Ragnhildur að um einhvern misskilning hafi verið að ræða milli ráðuneytisins og blaðamanns.
Reglur hugsanlega bundnar farsviði
Ragnhildur segir að nú hafi ráðuneytið óskað eftir því við Siglingastofnun að kannað verði hvernig skemmtibátar eru skráðir í nágrannalöndunum, hvaða kröfur eru gerðar til búnaðar þeirra og meta rök fyrir núverandi kröfum á íslenska skemmtibáta. Spurð um hvort það hafi ekki verið gert áður en núgildandi reglur hafi verið settar segir hún að auðvitað hafi það verið gert. "En það var ekki farið kerfisbundið í að skrá hvaða búnaðar er krafist þar," segir hún. Þá gerir hún ráð fyrir því að Siglingastofnun hafi kannað hvaða reglur gildi í nágrannalöndunum áður en reglurnar voru settar.Ein helsta gagnrýni skemmtibátaeigenda lýtur að því að skemmtibátar séu notaðir við allt aðrar aðstæður en fiskibátar og því ekki sjálfgefið að sömu reglur gildi um báða flokka. Ragnhildur segist sammála því að aðstæðurnar geti verið mismunandi, skemmtibátar séu oft notaðir í betra veðri en fiskibátar. "Því má hins vegar ekki gleyma að skemmtibátar sigla á sama sjó og fiskibátar og án takmarkana af hálfu stjórnvalda," segir hún.
Ragnhildur var þá spurð hvort einhverjar kannanir hefðu farið fram á notkun skemmtibáta og hvort hún væri ólík notkun á fiskibátum. "Þetta er eitt af því sem við ætlum að kanna núna," segir hún. Engin skráning sé til á notkun bátanna.
"Við erum til í að opna þetta mál og kanna hvort hugsanlega megi gera aðrar kröfur til skemmtibáta," segir hún. Til greina komi að binda reglurnar við farsvið, þ.e. hvar þeir eru notaðir eða fækka skoðunum á öryggisbúnaði.