GRASRÓTARSAMTÖK sem kenna sig við Samtök um betri byggð og Höfuðborgarsamtökin hafa gagnrýnt harðlega og barist gegn framkvæmdum við færslu Hringbrautar eins og hún er fyrirhuguð af hálfu borgaryfirvalda og Vegagerðarinnar. Hafa umrædd grasrótarsamtök bent á aðra leið, sem er afar athygliverð.
Vandi borgaryfirvalda
Borgarstjórnin hefur þegar samþykkt að færa Hringbrautina suður fyrir lóðir Landspítalans þar sem Tanngarður, tannlækningadeild Háskólans, er til húsa. Málið er ekki nýtt þar sem það hefur verið til umræðu hjá skipulagsyfirvöldum allt frá um 1970, þegar samkomulag var gert milli borgaryfirvalda og ríkisins um færslu Hringbrautar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þeim tíma og ljóst að þær forsendur, sem á þeim tíma var unnið með, þurfa síður en svo að gilda í dag. Hef ég þar í huga gjörbreytt viðhorf almennings í skipulags- og umhverfismálum. Hér er ekki um smáaðgerð að ræða, sex akreinar eins og þær gerast stærstar í erlendum stórborgum. Frá umhverfissjónarmiði er þessi framkvæmd lýti á borgarsamfélaginu og því vekur það undrun að þegar kemur að framkvæmd virðast borgaryfirvöld ekki hafa séð ástæðu til að skoðað aðra möguleika en þann sem þegar lá fyrir. Þetta er augljóst því að í allri umfjöllun hafa borgarfulltrúar þagað þunnu hljóði og látið embættismenn um skýringar og skoðanir kjörinna fulltrúa. Þetta á sérstaklega við um meirihlutann, fulltrúa R-listans, en eins og allir vita hafa þeir síðasta orðið þegar að ákvörðun kemur, jafnvel þó samgönguráðuneytið og Vegagerðin komi þar að.
Nýjar tillögur
Átakshópurinn hefur lagt til að Hringbrautin verði grafin niður og síðar, ef ástæða þykir til, að byggja stokk um og yfir brautina. Er þetta víða gert erlendis. Eitthvað mun þessi tillaga kosta meira við fyrstu sýn en um leið verður ávinningurinn mikill. Það sem skiptir hér mestu máli eru umhverfisáhrif og nýting á verðmætu landi. Hvorugt þessara atriða hafði borgarstjórnin að leiðarljósi við ákvörðun um lagningu nýju Hringbrautarinnar. Við það að fara leið átakshópsins mun þessi framkvæmd ekki verða lýti á borgarsamfélaginu eins og allt stefnir í, hljóðmengun verður allt önnur og margfalt minni og síðast en ekki síst mun landnýting fyrir byggingar, útivistarvæði og annað skila sér margfalt í borgarsjóð. Hér liggja því fyrir tillögur sem borgaryfirvöld mega ekki hundsa eins og um eitthvert dægurmál sé að ræða. Hér eru hagsmunir miklu meiri og stærri.
Vinstri-grænir eða Vega-grænir
Undarlegust er þó afstaða Vinstri-grænna, sem ættu eftir þetta að fá viðurnefnið Vega-grænir. Í þessu máli eins og mörgum öðrum, t.d. úthlutun á bensínstöðvum í Breiðholtinu, fer ekkert fyrir svokallaðri umhverfisstefnu þessara "Græningja". Svo virðist sem allt tal þessa stjórnmálaflokks í borgarstjórn um umhverfisvernd og -sjónarmið séu orðin tóm og ekkert mark á takandi.Það styttist í næstu borgarstjórnarkosningar, aðeins rúmt eitt og hálft ár. Borgarbúar ættu að hafa í huga hve núverandi meirihluti er í raun óvinveittur umhverfinu þegar ferill hans í þeim efnum er skoðaður og hve sjónarmið borgarbúa skipta þar litlu máli.
Júlíus Hafstein skrifar um umhverfismál
Höfundur er fyrrv. borgarfulltrúi og fyrrverandi formaður Umhverfismálaráðs Reykjavíkur.