Pétur Pétursson fræðaþulur benti á það hér í blaðinu 31. júlí, að frú prófessor Helga Kress virðist ekki vita einföldustu atriði um verk Halldórs Kiljans Laxness, til dæmis hver er höfundur alkunnrar vísu í Sölku Völku (en ég greini raunar frá því í fyrsta bindi ævisögu skáldsins). Því er við að bæta, að frúin sagði sárhneyksluð í Spegli Ríkisútvarpsins 29. júní, að ég notfærði mér í ævisögunni efni eftir "danskan prest" að nafni Konrad Simonsen. Þess er vandlega getið í bók minni, að ég styðst þar við lýsingar Simonsens á vist hans í klaustrinu, þar sem hann var samtímis Kiljan og talaði margt við hann. Nær væri að hneykslast á því, að enginn íslenskur bókmenntafræðingur hafði fundið þessa frásögn, sem ég gróf upp í Danmörku. En Simonsen var ekki prestur. Hefði frú Kress haft fyrir því að lesa bók mína vandlega og raunar líka ritgerð eftir Kiljan um þennan málvin hans, þá hefði hún komist að því, að Simonsen var bókmenntafræðingur. Raunar var afar fátt prestlegt við líf hans annað en áhugi á andlegum málum.
Ég hef því miður rekist á fleiri dæmi um vanþekkingu frú Kress á Kiljan og verkum hans. Þess vegna verð ég að draga til baka tillögu mína um að veita henni doktorsnafnbót fyrir skýrslu þá, sem hún tók saman fyrir dætur Kiljans um bók mína. Í sárabætur legg ég til, að frúin fái sérstaka viðurkenningu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins fyrir þrautnýtingu efnis. Hún hefur hvorki meira né minna en fjórum sinnum farið opinberlega fram með sömu ásökun á hendur mér. Fyrst skrifaði hún grein í Lesbók Morgunblaðsins, síðan var skýrslunni fyrir dæturnar laumað í DV, þá birti hún ritgerð í Sögu, og loks endurtók hún þetta allt í viðtali í Speglinum. Glæpur minn er að sögn frúarinnar að hafa í ævisögu nóbelsskáldsins notfært mér lýsingar þess á æsku sinni, umhverfi og samtíðarmönnum, eins og ég tók sérstaklega fram í eftirmála, að ég gerði. Hafði ég lært margt af skáldinu sjálfu um þau vinnubrögð. En eltingarleikur frúarinnar við mig er hins vegar auðvitað löngu orðinn fáránlegur skrípaleikur.
Höfundur vinnur að ævisögu Halldórs Kiljans Laxness.