Fylkismaðurinn Sævar Þór Gíslason býr sig undir að sparka í boltann en varnarmaður Keflvíkinga,  Guðjón Árni Antoníusson,  reynir að koma í veg fyrir að framherjanum takist ætlunarverk sitt.
Fylkismaðurinn Sævar Þór Gíslason býr sig undir að sparka í boltann en varnarmaður Keflvíkinga, Guðjón Árni Antoníusson, reynir að koma í veg fyrir að framherjanum takist ætlunarverk sitt. — Morgunblaðið/ÞÖK
KEFLAVÍK fagnaði naumum sigri í Árbænum í gær gegn Fylki í átta liða úrslitum VISA-bikarkeppni KSÍ en Þórarinn Kristjánsson skoraði eina mark leiksins á 68. mínútu eftir lipra sókn Keflvíkinga. Leikurinn fer seint í sögubækurnar fyrir tilþrif og skemmtun. Bæði lið ætluðu sér ekki að gera nein mistök og sóttu ekki mikið að markinu. Það verða því aðeins lið utan höfuðborgarinnar í hattinum er dregið verður til undanúrslita í dag á vegum KSÍ en þar verða KA, HK, Keflavík og FH í hattinum.

Það var hart barist á vellinum og létu heimamenn Egil Má Markússon, dómara leiksins, fara í skapið á sér - sem endaði með því að Björgólfur Takefusa var rekinn af leikvelli á 59. mínútu fyrir óíþróttamannslega framkomu.

Fylkismenn hafa ekki unnið leik í rúman mánuð og var greinilegt að leikmenn liðsins ætluðu sér að ná sér á strik á heimavelli. Fyrstu færi leiksins voru þeirra. Björgólfur átti skot að marki úr aukaspyrnu og Finnur Kolbeinsson átti gott skot á 14. mínútu sem markvörður Keflvíkinga Magnús Þormar varði í horn.

Ólafur Gottskálksson var ekki í marki Keflavíkur að þessu sinni og sögðu forráðamenn liðsins að hann væri í agabanni og ólíklegt að hann yrði með næsta leik liðsins í Landsbankadeildinni gegn Fylki á heimavelli Keflavíkur.

Að auki var Stefán Gíslason meiddur en hann verður líklega klár í slaginn á ný á sunnudag.

Þórarinn Kristjánsson átti gott skot að marki Fylkis á 34. mínútu sem Bjarni Þórður Halldórsson varði í horn. Streten Djurovic, miðvörður Keflavíkur, fékk upplagt færi eftir hornspyrnuna en skaut yfir af stuttu færi og markalaus fyrri hálfleikur var staðreynd.

Það fór kliður um stuðningsmenn Fylkis er Sævar Þór Gíslason fékk gríðarlega gott færi á 52. mínútu en skaut framhjá fyrir opnu marki..

Keflvíkingar gengu á lagið manni yfir og eftir vel útfærða sókn þeirra skoraði Þórarinn eina mark leiksins á 68. mínútu. Scott Ramsey sem rétt áður hafði komið inná sem varamaður sendi knöttinn inn fyrir flata vörn Fylkismanna á Jónas Guðna Sævarsson sem sendi fyrir markið á Þórarin sem skoraði af stuttu færi.

Keflvíkingar féllu í þá gryfju að leggjast í vörn það sem eftir lifði leiks en náðu að bægja sóknum Fylkismanna frá og fögnuðu í leikslok.

"Við vorum að spila vel í síðari hálfleik og markið var fallegt. Eins og við viljum hafa þau," sagði Milan Stefán Jankovic, þjálfari Keflvíkinga, eftir leikinn. "Reynsluleysi í liðinu kom í ljós er við vorum einum fleiri. Í stað þess að leika upp vængina, lögðumst við í vörn og gáfum færi á okkur. En þessi leikur fer í reynslubankann."

Þorlákur Árnason, þjálfari Fylkis, var nokkuð sáttur við leik liðsins en sagði nýtinguna á færunum gera liðinu erfitt fyrir. "Það er sama sagan. Við sköpum okkur færi en náum ekki að nýta þau. Það er erfitt að vinna leiki ef liðið skorar ekki mörk." Þorlákur var ekki sáttur við rauða spjaldið sem Egill Már gaf Björgólfi í síðari hálfleik. "Að mínu mati var þetta meinlaus athugasemd sem hefði mátt leysa með gulu spjaldi. Rauða spjaldið var of mikið. Að auki fengum við ekki vítaspyrnu í síðari hálfleik er Sævar Þór var kominn einn í gegn. Vítaspyrna og ekkert annað."

Í liði Keflavíkur bar mikið á Haraldi Guðmundssyni í vörninni. Einnig áttu þeir Hólmar Örn Rúnarsson og Jónas Guðni Sævarsson lipra spretti.

Lið Fylkis virkaði flatt og litlaust. Guðni Rúnar Helgason var góður ásamt Gunnari Péturssyni. Aðrir leikmenn voru langt undir pari.

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar