Seltjarnarnes | Gagnrýni Áhugahóps um betri byggð á Seltjarnarnesi er hið ágætasta mál að sögn Jónmundar Guðmarssonar, bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar. Hann bendir hins vegar á að athugasemdir hópsins, sem sendar hafi verið til allra íbúa á Seltjarnarnesi, taki til eldri tillagna sem kynntar voru í maí, en í þeim skipulagstillögum sem nú liggi fyrir hafi verið tekið tillit til margra þátta í gagnrýni áhugahópsins, sérstaklega hvað snertir hæð húsa við Suðurströnd og fjölda íbúða. Talsmanni hópsins virðist þó hafa láðst að geta þess að rætt var við hópinn á fyrri stigum og fulltrúm hans boðið að hitta ráðgjafa bæjarins til að ræða ábendingar sínar og mögulegar lausnir. Ekki hafi orðið af slíkum fundi en hópurinn hafi tekið saman greinargerð um sjónarmið sín að beiðni bæjarstjóra. Greinargerðin hafi svo verið nýtt ásamt öðrum ábendingum við frekari gerð skipulagsins og komið til móts við óskir hópsins um lægri og minni byggð.
Jónmundur segir nauðsynlegt að auka fjölbreytni búsetumöguleika á Seltjarnarnesi og sé gleðilegt að sjá að hópurinn hyggist ekki sporna gegn slíkri viðleitni, enda séu margir Seltirningar orðnir óþreyjufullir eftir framkvæmdum, ekki síst eldri íbúar sem vilji minnka við sig, yngri íbúar sem vilji hefja búskap eða barnafólk sem vanti stærra húsnæði.
Íbúðum fækkað í tillögum
Jónmundur segist fagna athugasemdum Áhugahópsins, enda sé leikurinn til þess gerður að á skipulagsstiginu komi fram athugasemdir. "Í sjálfu sér er það bara fagnaðarefni að fólk hafi áhuga á þessum mikilvæga málaflokki hjá okkur," segir Jónmundur. "Athugasemdir áhugahópsins sem og allra annarra sem kunna að gera slíkar athugasemdir verða teknar til umfjöllunar hjá skipulags- og mannvirkjanefnd þegar frestur til að gera athugasemdir er útrunninn. Það er síðan hlutverk Skipulagsnefndar að fara ofan í saumana á öllum athugasemdum, taka á þeim og svara. Á endanum er það síðan Skipulagsstofnun sem kveður á um hvort endanlegt skipulag stenst allar kröfur. Þannig er reynt að sneiða hjá öllum raunverulegum slysum þótt smekkur manna verði trauðla samræmdur.Þær tillögur sem fóru í auglýsingu eru meðal annars byggðar á athugasemdum þessa hóps og við þeim hefur verið orðið." Áhugahópurinn gerði meðal annars alvarlegar athugasemdir við áætlaðan íbúðafjölda á svæðinu og vildi að þeim yrði fækkað í sjötíu í stað hundrað og áttatíu. Jónmundur segir að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir allt að 180 íbúðum, sem sé í fullu samræmi við staðfest Svæðaskipulag höfuðborgarsvæðisins. "En eftir kynningu í vor og athugasemdir frá þessum hópi í júní var brugðist við og íbúðum fækkað og húsin lækkuð," segir Jónmundur og bendir á að aðallega hafi verið um að ræða húsnæði á þrem til fjórum hæðum, en helstu athugasemdir hópsins hafi beinst að sex hæða húsum og við því hafi verið brugðist. "Nú er til dæmis ekki gert ráð fyrir nema 114 íbúðum á Suðurströnd og aðallega er um að ræða húsnæði á þrem og fjórum hæðum í tillögunum eins og þær standa."
Bregðast við nýjum þörfum
Jónmundur segir mikilvægt að nefna að bæjaryfirvöld hafi frá upphafi unnið málið fyrir opnum tjöldum og leitast við að upplýsa íbúa um gang mála með kynningarritum og fréttatilkynningum. Þá hafi bæjaryfirvöld byggt tillögurnar upp á samráðsferli sem tekið hafi mörg ár, en kynningin hafi hafist með íbúaþingi árið 2002. "Ákvörðun um landnýtinguna á þessu svæði er orðin ársgömul og var hún kynnt öllum bæjarbúum í þartilgerðum bæklingi síðastliðið sumar. Síðan var haldinn fjölmennur og mjög góður kynningarfundur um málið fyrir bæjarbúa í Seltjarnarneskirkju í maí síðastliðnum," segir Jónmundur. "Í framhaldi af því gafst bæjarbúum um fimm vikna skeið tækifæri til að gera athugasemdir og eða hitta ráðgjafa bæjarins í málinu til að fá skýringar og koma við athugasemdum. Áhyggjuefni áhugahópsins voru þar á meðal og síðan voru þau tekin til athugunar hjá skipulags- og mannvirkjanefnd, sem byggði síðan tillögur sínar um auglýsingu skipulagsins meðal annars á athugasemdum hópsins."Börnum á leik- og grunnskólaaldri fer nú fækkandi á Seltjarnarnesi og segir Jónmundur augljóst að fólkið sem byggði bæjarfélagið á sínum tíma og flutti þangað með börn sín sitji nú eftir í stórum húsum, þar sem börnin séu vaxin úr grasi og flutt út. "Þessi hópur vill minnka við sig án þess að flytja af Seltjarnarnesi, en það er erfitt eins og ástandið er núna," segir Jónmundur. "Það er ekki eðlileg hringrás á búsetustöðum fólks eftir aldri á Seltjarnarnesi. Og þegar við blasir að það er mikil eftirspurn eftir íbúðum sem fólk getur flutt sig í þegar það vill minnka við sig, eða þegar ungt fólk vill hefja búskap, þá ber okkur að bregðast við því."
Jónmundur segir þurfa um 200 nýjar íbúðir á Seltjarnarnesi til að íbúafjöldinn geti staðið í stað. "Við erum því að ganga skemur en svæðaskipulagið gerir ráð fyrir og fyrst og fremst að miða við að íbúafjöldinn haldist óbreyttur til lengri tíma litið," segir Jónmundur og bætir við að hann telji alla Seltirninga áhugafólk um betri byggð og hvetur alla íbúa til að kynna sér tillögurnar og móta sér rökstudda og sjálfstæða skoðun á þeim.