[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Með hljóðfæri í fangi flögra þær um eins og fiðrildi, fullar af lífsgleði og hlátri. Kristín Heiða Kristinsdóttir hitti stelpurnar sem skipa kvennahljómsveitina Skonsurnar.

Engin lognmolla er í kringum þessa nýju kvennahljómsveit og stelpurnar sex sem eru í bandinu taka sig ekki of hátíðlega. Þær eru þó fullar metnaðar og eldmóðs og rokkið ólgar í æðum þeirra. Þær eru viðþolslausar að tjá sig með tónum og söng. Þær segja þetta allt hafa byrjað í vetur sem leið, þegar söngkonan Elín Margrét Rafnsdóttir samdi lagið Mayday!

"Hún var alltaf að syngja þetta lag á göngum Landakotsskóla, þar sem ég, Sigga og Elín erum saman í bekk, og hljómsveitarhugmyndin kviknaði út frá þessu lagi og var eiginlega bara grín í fyrstu," segir Júlíana Sól Sigurbjörnsdóttir sem leikur á gítar og fiðlu en Sigga eða Sigríður Soffía Hafliðadóttir spilar á píanó og minniháttar hljóðfæri eins og þær orða það. Þá eiga þær við hristur, bongótrommur og annað "smálegt".

Bekkjarsystrunum þremur, Elínu, Sól og Siggu, fannst Mayday! svo frábært lag að þær ákváðu að fylgja grínhugmyndinni eftir og stofna hljómsveit. Þær komu í fyrsta skipti fram á árshátíð Landakotsskóla í vetur. "Þá hafði Hrönn Magnúsardóttir bæst í hópinn en við buðum henni að vera með í hljómsveitinni af því að hún er svo fjölhæf, spilar bæði á saxófón og fiðlu. Hún gat því miður ekki komið fram með okkur á þessu fyrsta giggi okkar því hún var upptekin við uppsetningu á Hárinu í Hagaskóla, sem er hennar skóli." Hrönn á heiðurinn af nafni hljómsveitarinnar sem varð til þegar þær vinkonurnar voru eitt sinn að borða skonsur. "Okkur fannst það hljóma vel og auk þess erum við líka svo miklar skonsur."

Fjölgar stöðugt í hljómsveitinni

Skemmst er frá því að segja að Skonsurnar slógu ærlega í gegn á árshátíðinni og "gerðu svaka sjó". "Við höfðum ljósin slökkt í upphafi og Sigga spilaði á hljómborðið. Síðan hlupum við Sól inn á sviðið í myrkrinu undir geðveiku þyrluhljóði," segir Elín. Þær spiluðu lögin Mayday! og Dollý þetta kvöld og segja seinna lagið vera aðalhittið sitt.

Eftir þessa fyrstu opinberu sviðsframkomu fór boltinn að rúlla og enn fjölgaði í hljómsveitinni. "Bassaleikarinn Tanja Huld Guðmundsdóttir bættist í hópinn en hún er líka mjög liðtæk í bakröddinni. Salka Hjálmarsdóttir er nýgengin til liðs við okkur, en hún leikur á gítar og trompet og syngur líka bakrödd. Við vorum í grillveislu hjá henni og hún fékk inngöngu með það sama í Skonsurnar eftir að hafa leyft okkur að heyra nokkur lög sem hún hafði samið."

Skonsurnar segjast sennilega enda sem sinfóníuhljómsveit ef þeim haldi áfram að fjölga. En geta strákar fengið inngöngu í bandið eða á þetta að vera kvennahljómsveit?

"Því miður geta strákar ekki verið Skonsur," segir Sigga ákveðin en hinar eru ekki alveg á sama máli og segja að hæfileikaríkir strákar með mikið af bringuhárum og vel útlítandi geti alveg átt möguleika á að komast í hljómsveitina.

Stelpur eru alveg jafn klárar

Skonsunum finnst æðislegt kikk að koma fram og spila og syngja og þær eru ákveðnar í að taka þátt í Músíktilraunum á næsta ári, enda veiti ekki af að bæta úr kvennahljómsveitaleysinu þar á bæ. "Okkur finnst alveg ömurlegt að það skuli ekki fleiri stelpur taka þátt í Músíktilraunum, því stelpur eru alveg jafn klárar og strákar. Við ætlum að koma sterkar inn með brjálað stelpupönk og rokk. Við ætlum að fara á fullt í æfingar og búa til prógramm og erum að leita að góðu og föstu æfingahúsnæði. Við höfum verið að æfa hér og þar en æfingarnar verða miklu markvissari ef við erum á einum stað með öll hljóðfærin."

Vel menntaðar tónlistarstelpur

Skonsurnar binda sig ekki við eina tónlistarstefnu þótt þær séu nokkuð veikar fyrir rokki.

"Mayday! og Dollý eru hálfgerð dægurlög en okkur langar að fara meira út í rokk. Við viljum gera bræðing úr alls konar tónlistarstefnum. Það er ekkert mjög algengt í rokkhljómsveitum að hafa saman fiðlu, trompet og saxófón eins og við höfum, en úr þeirri samsetningu er hægt að gera ýmislegt frumlegt og skemmtilegt," segir Salka sem hefur alið þann draum með sér frá því hún var lítil stelpa að vera í hljómsveit.

Skonsurnar eru engir viðvaningar í tónlist og vel menntaðar á því sviði. Salka er búin að læra á trompet í mörg ár og hefur haft gítarinn meðfram, Elín hefur sungið í kór, Hrönn hefur lært á fiðlu síðan hún var átta ára en bætti við sig saxófóninum í fyrra og söng í kór í mörg ár, Tanja hefur lært á gítar en færði sig yfir á bassa, Sól hefur lært á fiðlu í nokkur ár og Sigga hefur verið í söngnámi í tíu ár en hún getur nánast spilað á hvaða hljóðfæri sem er, enda alin upp á miklu tónlistarheimili en móðir hennar er söngkonan og kórstjórnandinn Margrét Pálmadóttir.

Grýlurnar og Janis Joplin

Skonsurnar sjá sameiginlega um tónsmíðarnar og þótt ein þeirra komi kannski með hugmynd leggja þær allar eitthvað til málanna og lagið þróast því út frá innleggi hinna. "Okkur finnst lögin verða skemmtilegri ef allir fá að koma með sínar hugmyndir," segir Sigga og bætir við að textarnir séu bæði á íslensku og ensku.

Skonsurnar hafa mjög breiðan tónlistarsmekk og "fíla í ræmur" bæði gamalt og nýtt. Þegar þær eru inntar eftir því hvaða hljómsveitir höfði til þeirra er listinn langur og fjölbreyttur. Þær nefna Rolling Stones, Bítlana, Maus, Mínus, Jimi Hendrix, David Bowie, Led Zeppelin, Pink Floyd, The Doors, Guns 'n' Roses, Sigur rós, Björk, Radiohead, Coldplay, Leaves, Placebo, Jeff Buckley, Pixies, The Mars Volta, Lou Reed, Velvet Underground, Massive Attack, Mogwai og Godspeed you black emperor. "Okkur finnst ameríska stelpurokkhljómsveitin The Donnas æðisleg og líka rokkgellan PJ Harvey og við elskum Janis Joplin. Grýlurnar eru líka geðveikar," segja Skonsurnar að lokum.

khk@mbl.is