Á MÍNUM sokkabandsárum varð ég stundum vitni að því þegar stórir menn tóku sig saman og lömdu niður sér minni mann. Þá kom gjarnan að enn minni maður og sparkaði í manninn þar sem hann lá. Þetta þótti mér hinn mesti níðingsskapur, en gat þó lítið að gert, þar sem ég óttaðist um mitt eigið líf og limi kæmi ég nálægt slíkum aðförum. Það kemur mér sosum ekki á óvart að þessi sama breytni tíðkist meðal fullorðinna manna, en mér þykir hún samt alltaf jafn svívirðileg.
Halldór Vilhjálmsson skógarbóndi fer mikinn í háðskri og yfirlætisfullri grein sinni hér á síðum Morgunblaðsins 3. ágúst síðastliðinn og beinir orðum sínum til íslenskra náttúru- og umhverfisverndarsinna. Tilefnið er það að lítið ber á umhverfisverndarsinnum þessa dagana þrátt fyrir að Landsvirkjun og ríkisstjórnin hafi hátt um miklar framfarir í áliðnaði. Vill Halldór helst meina að það sé vegna sérstakrar óvildar íslenskra umhverfisverndarsinna gagnvart hinum dreifðu byggðum landsins og haturs á Austfirðingum manna helst. Undir rós og í óttalegri meinfýsi baunar Halldór því að íslenskum umhverfisverndarsinnum að þeir séu vitlausir og illgjarnir hræsnarar sem láti stjórnast af hatri og heigulskap til skiptis. Hann notar smekklega blótsyrðið "grænfriðungur" og skemmtir síðan lesendum með hinni sígildu háðsglósu að allir umhverfisverndarsinnar vilji "hvetja alþýðuna þar til að snúa sér að þjóðhollari iðju og umhverfisvænni eins og fjallagrasastóriðju og lopapeysuprjóni". Já, málefnaleikinn drýpur sem smjör af hverju strái í þessari frábæru grein.
Það er svo dásamleg firring að halda því fram að við séum "á móti Austfjörðum", að það jaðrar við að mig langi til að skrifa um það spennusögu. Sjálfur er ég Austfirðingur í móðurætt og þykir vænt um Jökuldalinn. Mér hefur þó verið gert ljóst að ég sé óvelkominn austur aftur og sagðist sá aðili tala fyrir munn Austfirðinga allra. Ég trúi því mátulega.
Við sem börðumst fyrir hálendi Íslands á "Kárahnjúkatímabilinu", áttum við ofurefli að etja, bæði pólítískt og fjárhagslegt. Við höfðum ekkert að vopni nema sannfæringu okkar og sannleikann, en þessi vopn máttu sín lítils gegn stórskotaliði því sem fólst í gegndarlausum áróðri Landsvirkjunar og ríkisstjórnarinnar og hundruðum milljóna sem eytt var í "almannatengsl" vegna hinnar dásamlegu frelsunarvirkjunar sem bæta mun allt líf allra Austfirðinga að eilífu með englum spilandi á hörpur og lúðra og ljónum lúrandi með lömbum, svo ég leyfi mér að nota flúraðan og glettinn stíl Halldórs.
Við töpuðum ekki bara þessari orrustu, heldur vorum við nídd niður í svaðið á eftir og sagt að halda okkur þar. Landverðir sem létu í ljósi skoðun sína fengu ekki störf aftur. Góðir Austfirðingar hafa þurft að flytja brott vegna ofsókna og haturs, bara vegna þess að þeir voru ekki sammála um framtíð síns byggðarlags. Þeir voru ekki alvöru Austfirðingar. Glossaðar fréttir af dásemdinni og endalausri hamingju Austfirðinga halda áfram og í hverri einustu frétt sem skrifuð er af almannatengslafyrirtæki Landsvirkjunar, sem er nú opinber fréttaritari Austfjarða, er baunað á okkur fyrir að vera barnaleg, vitlaus, vond og heimsk.
Íslenskir umhverfisverndarsinnar töpuðu stærstu orrustu síðari tíma um íslenska hálendið. Við erum í sárum og það er ekki til að bæta ástandið þegar snillingar eins og Halldór Vilhjálmsson ríða fram og sparka í okkur til að þykjast vera stórir menn.
Það var vissulega sárt að horfa upp á lygar Landsvirkjunar. Það var líka afar sárt að hlusta á ráðamenn kalla okkur landráðamenn fyrir að vilja ræða aðrar leiðir og almennari en beina auðlindasölu. En sárast er að fá spörkin frá venjulegu fólki sem situr í heita pottinum og lepur eftir ráðamönnunum glósurnar um landráð, lopapeysur og lambagrös og hið margfræga "hvað viltu þá fá í staðinn?" Það er sárt að hitta gott fólk sem búið er að ljúga svo fullt að það er tilbúið að hata og fyrirlíta aðra menn út af því að þeir hafa tilfinningar til umhverfisins.
Við okkur blasa mörg stór verkefni, krefjandi barátta gegn ofurefli Landsvirkjunar og pólitísks vilja stjórnvalda, sem virðast trúa því í einlægni að leiðin fram fyrir Ísland sé sú sama og flestar aðrar siðmenntaðar þjóðir hafa snúið við baki, leið iðnbyltingarinnar. Við munum ekki hætta að berjast fyrir því að Íslendingar noti höfuðin í stað þess að selja auðlindir sínar nær virðisaukalaust út úr landi. Við munum rísa upp úr niðurlægingunni og við munum vinna af heilindum að því að fræða ungt fólk og innblása því ást á landi sínu, ást sem virðist hafa gleymst í endalausum eltingaleik við skjótfenginn gróða.
Ég hef trú á Íslendingum og ég trúi því að okkar framtíð sé best borgið með því að virkja þá orku sem býr í fólkinu sjálfu, með því að bjóða því upp á öfluga menntun og möguleika í heimabyggð og auka sjálfstraust þess. Þetta er sú framtíð sem við umhverfisverndarsinnar berjumst fyrir og munum halda áfram að berjast fyrir, þrátt fyrir að einhverjir sparki í liggjandi menn. Það þarf meira en þetta til að halda okkur niðri, því við elskum okkar land.
Svavar Knútur Kristinsson svarar Halldóri Vilhjálmssyni
Höfundur er blaðamaður og nemi í umhverfisfræðum.