Skipulögð: Í júlí keyrðu Sigrún og Jón Gunnar hringinn sem hópurinn fer  til að tryggja að allt gangi vel núna.
Skipulögð: Í júlí keyrðu Sigrún og Jón Gunnar hringinn sem hópurinn fer til að tryggja að allt gangi vel núna. — Morgunblaðið/Helgi Garðarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fellabær | Það er ekki fyrir hvern sem er að skipuleggja ferð um Ísland fyrir hóp af 230 erlendum ferðamönnum á 114 húsbílum, en hjónin Sigrún Haraldsdóttir og Jón Gunnar Þorkelsson fara létt með það.

Fellabær | Það er ekki fyrir hvern sem er að skipuleggja ferð um Ísland fyrir hóp af 230 erlendum ferðamönnum á 114 húsbílum, en hjónin Sigrún Haraldsdóttir og Jón Gunnar Þorkelsson fara létt með það. Þau standa fyrir komu þessa risavaxna hóps hingað til lands, og tóku þau land úr Norrænu á Seyðisfirði í gær.

"Við ætluðum að koma með 13-15 bíla, en enduðum með 114," segir Sigrún. Í hópnum eru alls um 230 húsbílaeigendur frá hinum Norðurlöndunum sem allir eru meðlimir í einhverjum húsbílaklúbbi í sínu heimalandi. Erlendu gestirnir eru flestir komnir yfir fimmtugt, allir eru vanir að ferðast og ekki með börn.

Ferðin skipulögð á rúmu ári

"Megnið af þessu fólki hefur ætlað að koma til Íslands í 10 til 15 ár. Svo eru aðrir sem koma til mín og segja "ég hefði aldrei trúað því að ég ætti eftir að koma til Íslands", svoleiðis að tilhlökkunin er mikil og þau eru mjög ánægð að vera komin hingað," segir Sigrún.

"Við erum búin að vera að skipuleggja þetta frá því í júní á síðasta ári. Svo komum við hjónin hingað í júlí og keyrðum þennan hring sem við förum með hópinn til að vera viss um að allt sé eins og það á að vera. Svo við erum með alveg óhemjugott skipulag," segir Sigrún.

Hópurinn mun keyra hringinn í kringum landið og skoða allt sem hægt er að komast yfir á þeim þremur vikum sem fólkið dvelur hér. "Við förum upp á jökul - bæði með rútu og vélsleða og jeppum, það verður siglt á Jökulsárlóni og farið inn í Landmannalaugar á rútum," segir Sigrún. Stoppað verður víða, og m.a. verða íslenskir húsbílaeigendur í Reykjavík sóttir heim og grillað með þeim á tjaldstæðinu í Laugardal. Farið verður í siglingar, skroppið í Hrísey og farið í hvalaskoðun með bátum frá Húsavík.

Sigrún segir þetta fremur sérstaka hópferð, ekki síst fyrir þær sakir að ekki er um eiginlega hópferð að ræða. "Við leggjum mikla áherslu á það að fólkið keyri ekki í hóp vegna þess að ef við keyrum saman 114 bíla hópur þá stíflum við vegina. Svo við höfum samið við alla okkar næturstaði og fáum að koma þegar við viljum og fara þegar við viljum. Svo að fólk er að koma í rólegheitum út á vegina og inn á næturstaðina."

Flestir með íslensk símanúmer

Þó að hópurinn keyri ekki saman um vegina er skipulögð dagskrá. "Við erum með fasta næturstaði og erum með fastar uppákomur, en að öðru leyti er fólk frjálst eins og fuglinn. Við leggjum mikla áherslu á að fólk upplifi Ísland á sinn hátt," segir Sigrún. Flestir í hópnum eru með íslenskt farsímanúmer til að hægt sé að vera í sambandi við fólk ef eitthvað kemur upp. Það er ekki á allra færi að taka á móti 114 húsbílum á næturstað, og var nokkurt mál að finna þá staði sem gátu tekið á móti hópnum. "Það eru ekki mörg tjaldstæði sem geta tekið á móti okkur, en þar sem við getum farið inn á tjaldstæði þá gerum við það. Til dæmis eins og á Þingvöllum, við Geysi og víðar," segir Sigrún. Annars staðar gistir hópurinn þar sem pláss er fyrir hann, yfirleitt í dreifbýli þar sem plássið er nóg fyrir alla 114 bílana og íbúa þeirra.