ÞRJÁR gerðir af óæskilegum hugbúnaði gera tölvunotendum í auknum mæli lífið leitt, að sögn Friðriks Skúlasonar tölvufræðings. "Þessum hugbúnaði er laumað inn í tölvuna bakdyramegin," útskýrir hann, t.d.

ÞRJÁR gerðir af óæskilegum hugbúnaði gera tölvunotendum í auknum mæli lífið leitt, að sögn Friðriks Skúlasonar tölvufræðings. "Þessum hugbúnaði er laumað inn í tölvuna bakdyramegin," útskýrir hann, t.d. í gegnum tölvupóst eða í gegnum vefsíður, þegar notandinn sækir þaðan forrit.

Fyrsta gerðin, sem Friðrik nefnir í þessu sambandi, er hugbúnaður sem sér um að senda svokallaðan ruslpóst í tölvur um allan heim. Vegna hugbúnaðarins verður tölvan ekki "sjálfráð" eins og hann orðar það "heldur verður hún hluti af stóru rusldreifingarneti sem er stjórnað utan úr heimi".

Hann segir getgátur uppi um að skipulögð glæpasamtök standi á bakvið ruslpóstnet af þessu tagi. "Notandi tölvunnar veit ekkert af þessu fyrr en hann fær kannski fjallháan símareikning. Þetta er eins ólöglegt og frekast getur orðið."

Fylgst með notendunum

Önnur gerðin, sem Friðrik nefnir, er svonefndur njósnahugbúnaður (spyware) sem fylgist með því sem tölvunotandinn er að gera t.d. á Netinu og sendir þær upplýsingar út í heim. "Í mörgum tilvikum vita menn ekki hvar þessar upplýsingar enda."

Þriðja gerðin, segir Friðrik, er auglýsingahugbúnaður (adware) sem veldur því m.a. að upphafssíðu tölvunnar er breytt eða því að upp koma alls kyns auglýsingar á tölvunni.

Að sögn Friðrik er það ekki hlutverk veiruvarnarforrita að hreinsa svona hugbúnað úr tölvum. "Á hinn bóginn er í boði ágætis og ókeypis forrit sem hægt er að sækja af Netinu til að losna við svona ófögnuð úr tölvunum sínum. Má í því sambandi t.d. nefna forrit sem nefnist SpyBot."

Færa sig upp á skaftið

Aðspurður segir Friðrik að tölvuvírusar og ormar hafi verið í þó nokkurri lægð síðustu mánuði. Það rekur hann til handtöku nokkurra forritara eða vírushöfunda í Þýskalandi fyrr á árinu. "Eftir það höfðu hinir vírushöfundarnir hægt um sig." Hann segir þá þó hafa verið að færa sig upp á skaftið á allra síðustu dögum. Flestir þessara forritara eru ungir karlar á aldrinum fimmtán til tvítugs. Segir hann þá keppna um fjölmiðlaathygli.