TVÖ verkalýðsfélög á Akureyri, Eining-Iðja og Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri, hafa sent unglingum í sumarvinnu orðsendingu í prentmiðli sem gefinn er út í bænum. Þar eru þeir hvattir til að athuga hvort verið sé að hlunnfara þá í launum.

TVÖ verkalýðsfélög á Akureyri, Eining-Iðja og Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri, hafa sent unglingum í sumarvinnu orðsendingu í prentmiðli sem gefinn er út í bænum. Þar eru þeir hvattir til að athuga hvort verið sé að hlunnfara þá í launum. Einnig kemur fram að sumir vinnuveitendur greiði unglingum ekki laun samkvæmt kjarasamningum og geti þar munað þó nokkru.

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, sagði í samtali við Morgunblaðið að þessi orðsending væri send út að gefnu tilefni. "Það koma alltaf upp nokkur svona mál á hverju einasta sumri, þar sem verið er að greiða unglingum mismunandi laun. Einnig eru dæmi um að verið sé að greiða jafnaðarkaup og þá út frá ákveðnum forsendum. Svo eru krakkarnir að vinna allt öðruvísi og ná ekki kauptaxta."

Björn sagði að ekki væri endilega um ásetning að ræða, heldur frekar þekkingarleysi. Atvinnurekendur hefðu ekki kynnt sér hlutina nógu vel. "Það er of mikið um þetta og við erum með þessari orðendingu að ýta við fólki. Þetta hefur skilað árangri og hingað hafa margir hringt til að leita eftir upplýsingum. Unglingarnir eru því miður heldur ekkert að hugsa of mikið um þessa hluti."

Björn sagði það verst í þessu að ekki væri gengið frá neinu skriflegu. Of mikið væri um munnlega samninga og svo þegar á reyndi myndi hvorugur aðili eftir því um hvað var samið.

Undanfarin ár hafa fulltrúar félagsins heimsótt nemendur í 10. bekk í grunnskólum bæjarins til að fræða þá um réttindi sín og skyldur á vinnumarkaðnum og einnig er nú farið í framhaldsskólana. Björn sagði að þessi fræðsla hefði skilað sér og það sæist af því að færri mál af þessu tagi kæmu inn á borð félaganna en áður. "Krakkarnir halda að atvinnurekendur fái að vita af því ef þau eru að leita sér upplýsinga en svo er ekki. Hér ríkir trúnaður varðandi þau mál sem upp koma."

Aðspurður hvernig unglingum hefði gengið að fá vinnu sagði Björn að það hefði gengið misjafnlega. Sumir væru í almennri vinnu og margir í unglingavinnu.