KA-menn gera það ekki endasleppt í bikarkeppninni. Þeir eru komnir í undanúrslit fjórða árið í röð þótt gengi þeirra í deildinni hafi ekki verið upp á marga fiska. Liðið mætti ÍBV á Akureyrarvelli í gær og var staðan 0:0 eftir framlengingu og var því blásið til vítaspyrnukeppni þar sem leikmenn KA skoruðu úr þremur fyrstu spyrnunum en markvörður þeirra, Sándor Matus, varði þrjár fyrstu spyrnur Eyjamanna og úrslitin þar með ráðin.

Allt annað var að sjá til KA-manna en í síðustu leikjum. Þeir gáfu tóninn í upphafi leiks með mikilli baráttu, hreyfanleika og snörpu spili. Fyrsta stundarfjórðunginn voru KA-menn sterkari en síðan jafnaðist leikurinn. Reyndar áttu Eyjamenn ekkert skot sem rataði á markið en Atli Jóhannesson skaut rétt fram hjá á 43. mín. Hættulegasta færi KA kom á 44. mín. þegar Birkir Kristinsson varði skot frá Hreini Hringssyni.

Seinni hálfleikur hófst með stórsókn KA og Hreinn skapaði sér fljótlega gott færi en skaut fram hjá. Fyrstu 15-20 mínúturnar sýndi liðið sinn langbesta leik í sumar og í heild átti KA öllu meira í leiknum; það staðfesta líka tölur um markskot og hornspyrnur. Þeir virtust ákveðnir í því að hefna fyrir ófarirnar úti í Eyjum í deildarkeppninni á dögunum. Boltinn vildi hins vegar ekki fram hjá Birki í markinu. Gunnar Heiðar Þorvaldsson, markaskorarinn mikli hjá ÍBV, fékk færi á 66. og 67. mín. Fyrst skaut hann fram hjá en síðan varði Sándor Matus glæsilega með úthlaupi.

Á 71. mínútu fékk Dean Martin rautt spjald fyrir gróft brot á Bjarnólfi Lárussyni. Eyjamönnum tókst hins vegar ekki að nýta sér liðsmuninn og niðurstaðan varð markalaust jafntefli. Fátt markvert gerðist í framlengingunni. Sándor bjargaði einu sinni með úthlaupi, KA heimtaði vítaspyrnu þegar Hreinn Hringsson var hlaupinn niður í vítateig ÍBV og undir lok fyrri hálfleiks framlengingar varði Birkir vel skot frá Jóhanni Þórhallssyni. Leikurinn fjaraði síðan út.

Þau fáheyrðu tíðindi urðu í vítaspyrnukeppninni að KA vann 3:0. Atli Sveinn Þórarinsson, Örlygur Þór Helgason og Jóhann Helgason skoruðu af öryggi en Sándor Matus varði með tilþrifum spyrnurnar frá Gunnari Heiðari, Matt Garner og Ian Jeffs. Hann var því sannarlega hetja leiksins og bjargvættur KA.

Úrslitin hljóta að teljast sanngjörn. Vörn KA með Atla Svein sem besta mann var mjög traust, markvarslan örugg og ungu leikmennirnir á miðjunni, þeir Óli Þór Birgisson, Pálmi Rafn Pálmason og Jóhann Helgason náðu vel saman og spiluðu fínan bolta. Hreinn Hringsson þakkaði fyrir sæti í byrjunarliðinu með mjög góðum sprettum og virku spili. Birkir var góður í marki ÍBV og vörnin sterk. Miðjan hefur oft verið traustari þrátt fyrir ágætt spil á köflum og framlínan var óvenju bitlaus þótt stundum skapaðist hætta í kringum Gunnar Heiðar.

Atli Sveinn Þórarinsson, fyrirliði KA, var afar ánægður eftir leikinn. "Já, við spiluðum mjög vel. Þetta var sennilega besti leikur okkar í sumar. Okkur tókst samt ekki að skora en við vorum þó ekki farnir að örvænta. Það var fín stemning í hópnum, góð barátta og ég held að þetta sé allt á uppleið. Það var sterkt að ná að halda þetta út einum færri og svo var Sándor auðvitað hetja dagsins í vítaspyrnukeppninni," sagði Atli Sveinn.

Stefán Þór Sæmundsson skrifar