EKKI virðist liggja ljóst fyrir hvort al-Qaeda hryðjuverkanetið hafi ætlað að fremja hryðjuverk á Heathrow-flugvelli í Lundúnum, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC í gær, og hvort pakistönsk yfirvöld hafi veitt upplýsingar sem leitt...

EKKI virðist liggja ljóst fyrir hvort al-Qaeda hryðjuverkanetið hafi ætlað að fremja hryðjuverk á Heathrow-flugvelli í Lundúnum, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC í gær, og hvort pakistönsk yfirvöld hafi veitt upplýsingar sem leitt hafi til handtöku á þrettán meintum hryðjuverkamönnum í Bretlandi á þriðjudag.

Breska dagblaðið The Times sagði undirbúning að árás á flugvöllinn hafa verið á lokastigi en hætt hafi verið við hana eftir handtöku þrettán manna í Bretlandi sem grunaðir eru um tengsl við hryðjuverkasamtök. Sagði blaðið lögregluna hafa fengið upplýsingar frá pakistönsku leyniþjónustunni.

Samkvæmt frétt AP-fréttastofunnar í gær munu pakistönsk yfirvöld hafa afhent breskum yfirvöldum myndir af Heathrow-flugvelli og fleiri byggingum sem fundust í tölvum tveggja grunaðra al-Qaeda-liða sem handteknir voru fyrir skömmu í Pakistan. Tveir pakistanskir embættismenn, sem óskuðu nafnleyndar, sögðu kort, ljósmyndir og aðrar upplýsingar um möguleg skotmörk bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi, m.a. af Heathrow og undirgöngum milli bygginga í Lundúnum, hafa fundist í tölvunum. Innanríkisráðherra Pakistans, Faisal Saleh Hayyat, sagði pakistönsk yfirvöld ekki hafa veitt Bretum slíkar upplýsingar.

Þáttur Pakistana óljós

Grunur leikur á því að einn þeirra sem handteknir voru í Bretlandi á þriðjudaginn, Abu Musa al-Hindi, sé háttsettur al-Qaeda-liði. Hann hafi verið í sambandi við annan mannanna sem handteknir voru í Pakistan, Mohammed Noor Khan, og undirbúið árás á Heathrow. The Times segir Khan hafa komið í það minnsta sex sinnum til Bretlands á seinasta ári.

Bandaríska dagblaðið The New York Times hafði eftir bandarískum embættismönnum í gær að aukinn hryðjuverkaviðbúnaður Bandaríkjanna tengdist handtökunum í Bretlandi. Aðgerðir bresku lögreglunnar hefðu tengst upplýsingum pakistönsku leyniþjónustunnar með beinum hætti. Pakistönsk yfirvöld hafa hins vegar sagt að svo sé ekki.

Lundúnum, Islamabad, Washington. AP, AFP.