Björgólfur Thor Björgólfsson
Björgólfur Thor Björgólfsson
BJÖRGÓLFUR Thor Björgólfsson hefur ásamt hópi fjárfesta, þ.ám.

BJÖRGÓLFUR Thor Björgólfsson hefur ásamt hópi fjárfesta, þ.ám. Landsbanka Íslands og Straumi Fjárfestingarbanka, fjárfest í sérhæfða fjárfestingarsjóðnum CVIL en eina eign sjóðsins er 71,9% eignarhlutur í tékkneska fjarskiptafélaginu Ceske Radiokomunikace (CRa). Jafnframt var í gær gert yfirtökutilboð í hlutabréf minnihluta eigenda í Kauphöllinni í Prag. Markaðsverð CRa er 36,7 milljarðar króna en yfirtökutilboðið gildir í fimm vikur.

CRa var stofnað árið 1963 og var áður í eigu tékkneska ríkisins en var einkavætt árið 2001. Þá keypti Deutsche Bank 51% eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu en bankinn hafði áður keypt 20,9% hlut af danska símafyrirtækinu TDC. Eignin var síðar færð yfir í fjárfestingarsjóðinn CVIL sem Björgólfur Thor ásamt íslenskum og erlendum fjárfestum hefur nú fjárfest í. Deutsche Bank hefur umsjón með sjóðnum og annast rekstur hans. Starfsemi CRa skiptist í símaþjónustu og sjónvarps- og útarpssendingar. Langstærsta eign þess er 39,2% eignarhlutur í T-Mobile, sem er næst stærsta farsímafyrirtæki Tékklands en meirihluti hlutafjár í T-Mobile er í eigu Deutsche Telecom.

41% af farsímamarkaði

T-Mobile hefur tæplega 41% markaðshlutdeild á farsímamarkaði í Tékklandi, eða um 4 milljónir notenda en farsímanotkun í landinu er yfir 90%. Velta félagsins nam um 66 milljörðum íslenskra króna á síðasta ári og starfsmenn þess eru um 2.500 talsins. Til samanburðar má nefna að velta búlgarska símans BTC, sem Björgólfur Thor og fleiri íslenskir fjárfestar eiga hlut að, nam á sl. ári rúmum 45 milljörðum og þar starfa um 25 þúsund manns. Samanlögð velta Landssíma Íslands og Og Vodafone var um 25 milljarðar á síðasta ári. Hagnaður T-Mobile af árinu 2003 nam 12 milljörðum króna.

Móðurfélagið CRa hefur einkaleyfi til sjónvarps- og útvarpsútsendinga í Tékklandi. Það annast útsendingar og rekstur dreifikerfis fyrir allar helstu sjónvarps- og útvarpsstöðvar landsins en rekur ekki sjálft slíka miðla. Þá annast félagið dreifingu fyrir alþjóðlegar stöðvar um gervihnattakerfi. Móðurfélagið velti á sl. ári 6 milljörðum króna og starfsmenn þess eru 810 talsins. Hagnaður móðurfélagsins nam 226 milljónum króna.

Prag. Morgunblaðið.