Danski stórmeistarinn Henrik Danielsen kenndi grænlenskum börnum skáklistina og ekki vantaði einbeitinguna.
Danski stórmeistarinn Henrik Danielsen kenndi grænlenskum börnum skáklistina og ekki vantaði einbeitinguna. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"HÉR er mikil skákvakning hafin," segir Hrafn Jökulsson sem er nú staddur í Tasiilaq á austurströnd Grænlands með skákskóla Hróksins.

"HÉR er mikil skákvakning hafin," segir Hrafn Jökulsson sem er nú staddur í Tasiilaq á austurströnd Grænlands með skákskóla Hróksins. Fyrsti skóladagurinn var í fyrradag og mættu þá sex börn en í gær fylgdust 30 börn spennt með skákkennslu danska stórmeistarans Henriks Danielsen, sem er jafnframt skólastjóri skákskólans.

Í dag hefst svo alþjóðlegt atskákmót þar sem meðal þátttakenda verða stórmeistarar, grænlensk börn, íslenskir áhugamenn og skákmenn af öllum gerðum að sögn Hrafns. Fyrst þurfti að taka til hendinni inni og við samkomuhúsið þar sem mótið fer fram. Var hreinsað umhverfis húsið í fyrradag, gluggahlerar fjarlægðir, rúður þrifnar og samkomusalur málaður hvítur. Í gær þvoðu síðan allir í sendinefnd Hróksins gólf hússins svo allt yrði klappað og klárt í dag.

Sterk tengsl við Ísland

Í framhaldinu verða svo leikskólar, grunnskólar, elliheimili og félagsheimili í Tasiilaq heimsótt. "Við leitumst við að komast í snertingu við flesta íbúa Austur-Grænlands. Á þessu svæði búa rétt rúmlega 3.000 manns og þetta er einna einangraðasta byggðin á Grænlandi en um leið sú sem er styst frá Íslandi. Þannig að það eru sterk tengsl héðan til Íslands og við vonumst til að geta eflt þau á sem flestum sviðum," segir Hrafn. Það eigi því ekki bara við tengsl í gegnum skákina. Í flestum tilfellum þarf að byrja að kenna börnunum mannganginn.

Víða leynast skákmenn

Hrafn segir skáklistina hafa nánast verið óþekkta á Grænlandi þangað til á síðasta ári þegar Hrókurinn hélt fyrsta skákmót í sögu Grænlands á Qaqortoq á suðurströndinni. Í kjölfar þess hafi verið stofnuð skákfélög víða um landið og skáksamband í kjölfar skákmótsins.

"Hér í Tasiilaq er gríðarlegur áhugi hjá krökkunum. Við erum búin að vera með í allan dag skákborð á aðaltorginu og margir tugir krakka og fullorðinna hafa komið til að spreyta sig á skákinni. Hér leynast skákmenn innan um og við vonumst til þess áður en við förum héðan að búið verði að stofna skákfélag sem tekur að sér að halda utan um starfið í bænum og á Austur-Grænlandi," segir Hrafn, en í nágrannabæ hafi verið stofnað skákfélag í vor að undirlagi Hróksins. "Það er óhætt að segja að okkar góðu nágrannar séu að taka skákinni tveim höndum."