SÉRFRÆÐINGAR frá Frumherja skoðuðu í gær vörubílinn sem steyptist fram af brúnni yfir Laxá í Laxárdal í Dölum á þriðjudag eftir árekstur við jeppa, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Búðardal. Þá er niðurstöðu úr athugun á ökuritaskífu brátt að vænta en þar ætti m.a. að koma fram á hvaða hraða bíllinn var áður en áreksturinn varð.
Þegar vörubíllinn var skoðaður 19. apríl sl. voru gerðar athugasemdir við hemlunargetu aksturshemla bílsins. "Hann hemlaði sem sagt ekki nógu mikið," segir Jón Hjalti Ásmundsson, tæknistjóri ökutækjasviðs hjá Frumherja.
Ekki er skráð hversu mikið vantar upp á að bílar hemli fullkomlega, aðeins hvort þeir standist kröfur eða ekki. Hægt er að setja bíla í akstursbann ef þeir hemla ekki nægilega mikið en þess var ekki þörf í þessu tilfelli. Búið var að panta tíma fyrir bílinn í endurskoðun þegar slysið varð.
Aðrar athugasemdir lutu að stýrisenda, útblæstri og lofthemlakerfinu. Öll þessi atriði samanlögð urðu til þess að vörubíllinn fékk ekki aðalskoðun og átti að koma til endurskoðunar ekki síðar en 19. maí.
Jón Hjalti segir að samkvæmt reglugerð eigi að gera við bilanir eins fljótt og auðið er en eigandinn hafi síðan mánuð til að koma með hann til endurskoðunar.
Hann segir alltaf nokkuð um að menn séu á bílum sem komnir eru fram yfir skoðunardag. Margir, og jafnvel lögreglan líka, horfi í gegnum fingur sér með að framfylgja þessum reglum.
Sigvaldi Arason hjá Borgarverki segir að maður frá Bifreiðskoðun hafi komið og skoðað bílinn í gær. "Öll öryggistæki sem hann sá, og voru ekki skemmd eftir veltuna, voru í góðu lagi. Bremsuborðar alveg hreint rétt nýir, hann mældi þetta allt saman." Sigvaldi segir að maðurinn frá Bifreiðaskoðuninni hafi sagt bremsuborðana vera óslitna. Hann segist ekki skilja þessa umræðu sem hafi komið í kjölfar þessa máls, en hann viti hversvegna hún hafi komið upp. "Þessi bíll er búinn að fara einar þrjár ferðir á Ísafjörð í sumar, og það með vagn aftan í. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug, bæði að bílstjórinn sé svo vitlaus að fara þetta og ég svo vitlaus að senda hann? Það er alveg af og frá. Ég veit ástæðuna fyrir spurningunni," segir Sigvaldi en aðspurður segist hann ekki treysta sér til þess að gera grein fyrir henni eins og er, en muni gera það þegar öldur lægi.
Aðeins opin á þriðjudögum og fimmtudögum
Skoðunarstöð Frumherja í Borgarnesi hefur frá því í júní ekki verið opin á mánudögum til miðvikudags, eins og segir á heimasíðu fyrirtækisins og fram kom í frétt Morgunblaðsins í gær, heldur einungis á þriðjudögum og fimmtudögum.Á Akranesi er einnig skoðunarstöð Frumherja en hún er ekki búin bremsubúnaði fyrir vörubíla. Boðið er upp á bremsumælingu á Akranesi með færanlegu bremsumælingartæki um sjö til átta sinnum á ári. Opnunardögum í Borgarnesi hafi verið fækkað í júní vegna sumarleyfa og manneklu en skoðunarmaður á Akranesi hafi nýlega hætt og ekki hafi tekist að ráða mann í hans stað. Hann segir að til standi að færa opnunartíma í fyrra horf í haust enda sé full þörf á því.
Aðspurður segir Jón Hjalti að biðtími fyrir skoðun á stórum vörubílum sé sjaldnast meira en vika til tíu dagar. Menn verði að panta tíma fyrir bílana en margir mæti einnig einfaldlega á staðinn.