Það þarf 14 milljarða íslenzkra króna til þess að aðstoða hungrað fólk í Darfur í Súdan. Fram til þessa hafa aðeins borizt 5 milljarðar í þessu skyni frá hinum ríku þjóðum heims.

Það þarf 14 milljarða íslenzkra króna til þess að aðstoða hungrað fólk í Darfur í Súdan. Fram til þessa hafa aðeins borizt 5 milljarðar í þessu skyni frá hinum ríku þjóðum heims.

Allir þessir milljarðar eru miklir peningar en í ljósi þess að jafn margir milljarðar sveiflast til fram og aftur í viðskiptum á milli einkaaðila í okkar litla og fámenna samfélagi verður ljóst, að þeir 9 milljarðar, sem á vantar fyrir hungrað fólk í Súdan eru smápeningar á alþjóðlegan mælikvarða.

Samt sem áður hefur talsmaður Sameinuðu þjóðanna skýrt frá því, að ríki heims hafi aðeins lagt fram þriðjung af því, sem til þurfi í þessu tilviki.

Á sunnudag var 1400 tonnum af matvælum varpað niður á hin hrjáðu svæði í Súdan en það er matur fyrir um 70 þúsund manns.

Það eru til nógir peningar í heiminum til þess að hjálpa fólkinu í Súdan. Það eru líka til nógir peningar og annað, sem til þarf til þess að hjálpa börnunum í norðurhluta Úganda, sem flýja heimili sín að næturlagi til þess að verða ekki rænt af barnaherjum, sem fara þar um ránshendi.

Þrátt fyrir það, að nógir fjármunir eru til og þrátt fyrir það að upplýsingar eru fyrir hendi um vandann í þessum tveimur löndum og víða annars staðar í þriðja heiminum gerist of lítið.

Hvers vegna? Vegna þess, að öll athygli umheimsins beinist að stríðum í Miðausturlöndum og pólitískum og hernaðarlegum átökum annars staðar í heiminum. Áratugirnir líða án þess, að þau vandamál séu leyst. En hungrið og heilbrigðisvandamálin í Afríku og annars staðar er hægt að leysa ef athygli umheimsins og þeim krafti, sem þjóðir heims hafa yfir að ráða er beint að þessum vandamálum.

Hinar auðugu þjóðir Vesturlanda geta ekki lengur horft fram hjá því, sem er að gerast í hinum fátæka hluta heimsins. Samvizka okkar krefst þess, að við hefjumst handa.

Við Íslendingar höfum verið að leita leiða til þess á undanförnum árum að láta til okkar taka á alþjóða vettvangi. Það er ósköp eðlilegt að við leitum eftir slíkum verkefnum vegna þess að okkur hefur vegnað vel og við viljum láta gott af okkur leiða. Það er tími til kominn að kveða upp úr með það að kjarninn í utanríkisstefnu Íslands á 21. öldinni verði viðleitni þjóðarinnar til þess að hjálpa þeim þjóðum, sem eru hjálpar þurfi og geta nýtt sér aðstoð af því tagi, sem við höfum fram að færa. Hún er ekki fólgin í því að leysa stórpólitískar deilur, sem stórþjóðirnar beina athygli sinni að. Hún er fólgin í því að leysa hversdagsleg vandamál fólks, sem þarf vatn og mat, heilbrigðisþjónustu og skóla.