* GARÐAR B. Gunnlaugsson , knattspyrnumaður frá Akranesi , á ekki góðar minningar úr leikjum sínum gegn HK á Kópavogsvelli frá þessu sumri.

* GARÐAR B. Gunnlaugsson , knattspyrnumaður frá Akranesi , á ekki góðar minningar úr leikjum sínum gegn HK á Kópavogsvelli frá þessu sumri. Hann lék þar með bikarmeisturum ÍA sem voru slegnir þar út í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar fyrr í sumar, 1:0, og í fyrrakvöld var hann í liði Vals sem tapaði, 1:0, fyrir HK í 8 liða úrslitunum á sama velli.

* SIR Alex Ferguson , knattspyrnustjóri Manchester United , telur að Paul Scholes muni ekki sakna þess að leika með enska landsliðinu en Scholes hefur ákveðið að spila ekki framar með landsliðinu. "Paul hefur skilað sínu hlutverki frábærlega með landsliðinu. Ég held að hann muni ekki sakna þess að leika með landsliðinu. Hann hættir meðan hann er enn frábær leikmaður og ég virði ákvörðun hans," sagði Ferguson .

* ZINEDINE Zidane hefur ekki ákveðið hvort hann leikur áfram með franska landsliðinu í knattspyrnu. "Ég ætla að hugsa um framtíð mína með franska landsliðinu næstu tvær vikurnar. Ég mun tilkynna Frökkum ákvörðun mína bráðlega því Frakkar verða að vita hvort ég muni gefa kost á mér í landsleikinn gegn Ísrael í undankeppni HM fjórða september," sagði hinn 32 ára gamli Zidane .

* LIVERPOOL hefur áhuga á að kaupa danska landsliðsmanninn Thomas Gravesen frá Everton . Talið er að Everton vilji fá 450 milljónir króna fyrir leikmanninn sem á eitt ár eftir af samningi sínum við Everton . Ólíklegt þykir þó að Everton sé tilbúið að selja einn sinn besta leikmenn til erkifjendanna í Liverpool .

* JUVENTUS hefur gert tilboð í Adrian Mutu hjá Chelsea . Mutu gekk til liðs við enska félagið í fyrra en hefur ekki náð að festa sig í sessi og er orðinn fjórði framherjinn í röðinni á eftir Didier Drogba , Eiði Smára Guðjohnsen og Mateja Kezman .

* FRANSKI knattspyrnumaðurinn Bixente Lizarazu hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í franska landsliðið á ný en hinn 34 ára gamli varnarmaður hefur leikið 97 landsleiki á ferli sínum og skorað tvö mörk.

* HANN var í heimsmeistaraliði Frakka árið 1998 og í Evrópumeistaraliði Frakka árið 2000. Lizarazu segir að nú sé rétti tíminn til að gefa yngri leikmönnum tækifæri með landsliðinu en þrír lykilmenn úr vörn franska landsliðsins undanfarin ár hafa nú lagt landsliðsskóna á hilluna. Þeir eru auk Lizarazu Marcel Desailly og Lilian Thuram .