Lögreglumaður með sprengjuleitarhund við kauphöllina í New York.
Lögreglumaður með sprengjuleitarhund við kauphöllina í New York. — AP
Fréttaskýring | Bandaríkjastjórn verst nú ásökunum um að nýjasta viðvörunin um hugsanleg hryðjuverk sé af pólitískum rótum runnin. Viðvörunin vakti tortryggni en stjórnvöld neita því að hún hafi aðeins byggst á gömlum upplýsingum.

Sú ákvörðun bandarískra stjórnvalda um liðna helgi að auka öryggisviðbúnað við byggingar í þremur borgum vegna hryðjuverkaógnar byggðist á nýjum upplýsingum og ekki aðeins á þriggja til fjögurra ára gömlum gögnum úr tölvu liðsmanns al-Qaeda, að því er The New York Times hefur eftir hátt settum embættismönnum í Washington.

Einn heimildarmannanna sagði að "mjög nýleg starfsemi af hálfu al-Qaeda" sýndi svo ekki yrði um villst að hryðjuverkasamtökin væru að búa sig undir að koma í framkvæmd áformum um fleiri hryðjuverk í Bandaríkjunum. "Upplýsingarnar voru ekki allar frá einni heimild: nýjar upplýsingar voru lagðar fram seint á föstudagskvöldinu," sagði heimildarmaðurinn, sem vildi ekki láta nafns síns getið.

Heimildarmaðurinn vildi hvorki greina frekar frá þessum nýju upplýsingum né upplýsa hvaðan þær komu; sagði að það myndi stofna "njósna- og löggæslustarfsemi" í Bandaríkjunum og fleiri löndum í hættu. Heimildarmennirnir vildu ekkert segja um þessa starfsemi annað en að markmiðið með henni væri að hindra hugsanlegar árásir. Einn embættismannanna sagði þó að leyniþjónustan hefði fengið upplýsingar sem bentu til þess að árás kynni að vera yfirvofandi nú í ágúst eða september.

Fréttastofan AP hafði eftir embættismönnum í gær að nýju upplýsingarnar kæmu frá manni sem ekki hefði verið sagt frá í fjölmiðlum í tengslum við málið. Þeir vildu ekki greina frá því hvort maðurinn væri fangi eða uppljóstrari í al-Qaeda.

Þá hafði CNN-sjónvarpið eftir embættismönnum að komið hefðu fram nýjar upplýsingar sem sönnuðu að foringjar al-Qaeda í Pakistan hefðu haft samband við að minnsta kosti sex menn í Bandaríkjunum og a.m.k. einn þeirra á síðustu mánuðum.

Alríkislögreglan, FBI, fylgist með mönnum í Bandaríkjunum sem grunaðir eru um að tengjast al-Qaeda eða öðrum íslömskum hryðjuverkasamtökum, að sögn heimildarmanna AP í dómsmálaráðuneytinu í Washington.

Heimildarmenn The New York Times sögðu að nýjar upplýsingar um starfsemi al-Qaeda hefðu ráðið miklu um þá ákvörðun að auka öryggisviðbúnað við byggingar fimm fjármálastofnana í New York, Washington og Newark í New Jersey á sunnudaginn var. Hermt var þá að sú ákvörðun byggðist einkum á upplýsingum á tölvudiskum, sem fundust nýlega í Pakistan eftir handtöku liðsmanns al-Qaeda, Naeems Noors Khans. Þar kom fram að útsendarar al-Qaeda höfðu njósnað um byggingarnar fimm fyrir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001.

Fjögurra ára gömul gögn

Þegar stjórnvöld skýrðu frá þessu á sunnudag gátu þau þess ekki að flest gögnin á tölvudiskunum, ef ekki öll, voru þriggja til fjögurra ára gömul. Það var ekki fyrr en daginn eftir sem embættismenn viðurkenndu að ekki væri vitað hvort al-Qaeda hefði haldið áfram að njósna um byggingarnar með hryðjuverk fyrir augum eftir 11. september 2001.

Bandarísk stjórnvöld voru gagnrýnd fyrir að skýra ekki strax frá því hversu gömul gögnin voru og stjórnmálaskýrendur sögðu að málið gæti grafið undan trúverðugleika George W. Bush forseta og stjórnar hans fyrir forsetakosningarnar í haust.

"Tilraunir þeirra til að beina athyglinni að sérstökum svæðum og skotmörkum eru af hinu góða," sagði William Webster, fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustunnar CIA og alríkislögreglunnar, FBI, en hann er nú varaformaður ráðgjafarnefndar heimavarnaráðuneytisins í Washington. Hann bætti hins vegar við að sú ákvörðun að skýra ekki strax frá því hversu gömul tölvugögnin eru væri til þess "fallin að vekja tortryggni og vantraust".

Webster benti hins vegar á að undirbúningur hryðjuverka tæki oft mörg ár, þannig að þótt tölvugögnin væru þriggja ára gömul þýddi það ekki að áform al-Qaeda hefðu breyst. "Þetta þýðir aðeins að ekkert hefur gerst enn," sagði Webster.

Viðvörunin gefin út í pólitískum tilgangi?

Embættismenn gerðu John F. Kerry, forsetaefni demókrata, grein fyrir þeim upplýsingum sem viðvörun bandarísku stjórnarinnar byggðist á og hann hefur ekki gagnrýnt ráðstafanir hennar. Öðru máli gegnir um aðra demókrata og Howard Dean, sem sóttist eftir því að verða forsetaefni þeirra, ýjaði að því að viðvörunin um hugsanlegar árásir hefði verið gefin út í pólitískum tilgangi. "Ég hef áhyggjur af því að í hvert sinn sem eitthvað gerist, sem kemur ekki Bush forseta vel, þá spilar hann út trompinu, sem er baráttan gegn hryðjuverkastarfsemi," sagði Dean.

Jesse Jackson tók í sama streng og sagði það grunsamlegt að viðvörunin skyldi hafa verið gefin út aðeins nokkrum dögum eftir flokksþing demókrata sem hafði beint athygli fjölmiðla að Kerry. Jackson benti ennfremur á að bandaríska stjórnin hafði áður varað við því að Írakar réðu yfir gereyðingarvopnum en þær viðvaranir hefðu reynst rangar.

Gamlar en nákvæmar

Embættismenn stjórnvalda vörðu hins vegar ákvörðunina og sögðu að þótt upplýsingar á tölvudiskunum væru gamlar væru þær svo nákvæmar að óréttlætanlegt hefði verið að virða þær að vettugi. "Við vitum að al-Qaeda kannar staði gaumgæfilega með hryðjuverk fyrir augum og vinnur heimaverkefnin sín með löngum fyrirvara og endurskoðar þau síðan fyrir árásina," sagði Frances Townsend, heimavarnaráðgjafi í Hvíta húsinu.

Einu skjalanna, sem fundust á tölvudiskunum, virtist hafa verið breytt í janúar í ár en ekki var vitað hvort upplýsingarnar, sem bætt var við, voru fengnar með njósnum um byggingarnar fimm. Hugsanlegt er að bætt hafi verið við upplýsingum sem hægt er að finna í gögnum sem almenningur hefur aðgang að, til að mynda á Netinu. Reyndar er jafnvel hugsanlegt að litlu sem engu hafi verið bætt við, skjalið hafi aðeins verið opnað og vistað.

Sú staðreynd að það tók bandarísk yfirvöld þrjú ár að komast að því að liðsmenn al-Qaeda njósnuðu um byggingarnar fimm þykir varpa ljósi á frammistöðu leyniþjónustunnar - og hversu lítið Bandaríkjastjórn veit um starfsemi al-Qaeda.

Michael Greenberger, forstöðumaður Heimavarnastofnunar Maryland-háskóla, taldi það grunsamlegt að stjórnin skyldi ekki hafa skýrt frá því hversu gömul tölvugögnin eru fyrr en eftir blaðamannafund Bush á mánudaginn var. Fréttamennirnir vissu þá aðeins að stjórnin hafði fengið upplýsingarnar nýlega og Greenberger sagði að Bush hefði "fengið miklu erfiðari spurningar" ef þeir hefðu vitað að það tók yfirvöld þrjú ár að komast að raun um að útsendarar al-Qaeda njósnuðu um höfuðstöðvar fimm fjármálastofnana.

Greenberger bætti við að þetta gæti ennfremur orðið til þess að fólk efaðist um trúverðugleika stjórnarinnar næst þegar hún varar við hættu á hryðjuverkum.

Bruce Hoffman, sem hefur stundað rannsóknir á baráttunni gegn hryðjuverkum, sagði að bandarísk yfirvöld vissu hver skotmörk hryðjuverkamannanna væru og hvers vegna þau voru valin. "Við fáum hins vegar mjög sjaldan vitneskju um hvenær hryðjuverkin eru ráðgerð og við vitum ef til vill ekki eins mikið og við höldum um starfsemi al-Qaeda."

Hreinskilnin er affarasælust

Hoffman bætti við að hryðjuverkin 11. september 2001 hefðu verið undirbúin í sex ár og sprengjuárásirnar á tvö sendiráð Bandaríkjanna í Austur-Afríku 1998 í fimm ár. Ástæðan fyrir því að fleiri árásir hafa ekki verið gerðar í Bandaríkjunum gæti verið sú al-Qaeda væri enn að bíða eftir tækifæri til að láta til skarar skríða. Hoffman telur því að stjórnin hafi átt einskis annars úrkosti en að greina frá upplýsingunum og viðvörunin gæti orðið til þess að starfsemi al-Qaeda raskaðist.

"Ég hef alltaf litið svo á að ef menn eru hreinskilnir og heiðarlegir við fólk og skýra frá staðreyndum málsins verði það miklu auðveldara úrlausnar," sagði James Lee Witt, forstöðumaður almannavarna í forsetatíð Bills Clintons. "Þeir hefðu átt að segja: "þetta eru upplýsingarnar sem við fengum en þær eru gamlar". Það hefði ég gert."