Clinton sagði hins vegar ekki orð um athyglisverðan kafla í ævi Kerrys. Hér er átt við þann tíma sem hann varði í baráttu gegn stríðinu í Víetnam, eftir að hann sneri heim úr því.

John Kerry, forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum, sté í pontu á flokksþingi þeirra í Boston í liðinni viku. Stríðshetjan frá Víetnam heilsaði samflokksmönnum og sjónvarpsáhorfendum að hermannasið. Þegar ég sá herkveðju Kerrys á AP-myndum mundi ég eftir frásögn franska listamannsins Jean Cocteau. Eitt sinn mætti hann öldruðum blaðasala á götu úti. Þetta var árið 1919 og gamli maðurinn bauð til sölu eintök af Le Figaro á helmingi hærra verði en almennt tíðkaðist. Forvitni Cocteaus var vakin og hann keypti eintak af blaðasalanum. Þegar honum varð litið á blaðið sá hann hins vegar að það var tveggja ára gamalt. Fannst honum hann hafa verið svikinn og kvartaði við gamla manninn. Sá gamli svaraði hins vegar: "En kæri herra, það er einmitt þess vegna sem það er svona dýrt. Þetta eru stríðsfréttir."

Stríð eru, nú sem þá, söluvara. Og hugmyndin um þau virðist drífa áfram baráttuna í bandarísku forsetakosningunum í ár. Áhersla bandarískra demókrata á hernað og stríð vekur sérstaka athygli. Frá tímum Víetnamstríðsins hefur Demókrataflokkurinn verið þekktari fyrir áherslu á efnahags- og atvinnumál í Bandaríkjunum en umfangsmikinn stríðsrekstur utan þeirra. 11. september virðist hafa breytt þessu.

Kerry reynir að höfða til kjósenda sinna með því að lofa enn harðari aðgerðum í "stríðinu" gegn hryðjuverkum. Hann áfellist Bush ekki fyrir of umfangsmiklar aðgerðir í stríðinu gegn hryðjuverkum. Þvert á móti telur hann Bush ekki hafa gert "nógu mikið" í þessum málum.

Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, virðist einnig gera sér grein fyrir því hvað selur. Á fyrrnefndu flokksþingi demókrata lofaði hann og prísaði Kerry fyrir þátttöku hans í Víetnamstríðinu og jafnframt fyrir þann þátt sem hann hefði átt í að koma aftur á "eðlilegum" tengslum við Víetnam eftir að stríðinu lauk. Clinton sagði hins vegar ekki orð um athyglisverðan kafla í ævi Kerrys. Hér er átt við þann tíma sem hann varði í baráttu gegn stríðinu í Víetnam, eftir að hann sneri heim úr því.

Þetta kemur ekki á óvart ef skoðuð eru ummæli fyrrum forsetans í kjölfar slælegs gengis demókrata í kosningum til Bandaríkjaþings árið 2002. Kenndi hann þá um stefnu flokksfélaga sinna í varnarmálum. "Þegar fólk finnur til óöryggis, kýs það fremur þann sem er öflugur en hefur rangt fyrir sér, en þann sem er veikbyggður en hefur rétt að mæla." Þessi ummæli gefa til kynna að menn álíti sigur lykilatriði, en telja að málefnin sjálf skipti í raun minna máli.

Í kosningabaráttunni, sem nú er að fara á fullt skrið vestra, er búist við því að repúblikanar muni eyða tugum milljóna dollara í að reyna að gera stefnu Kerrys í öryggismálum tortryggilega.

Demókratar muni leggja fram álíka háar fjárhæðir í auglýsingar þar sem ferill Kerrys innan hersins er dásamaður. Þetta er sennilega helsta sérstaða baráttunnar í ár, miðað við fyrri kosningaherferðir.

Demókratar hafa því komist að þeirri niðurstöðu, að vænlegast til árangurs í nóvember, sé að lofa framhaldi á hryðjuverkastríðinu og gagnrýna stríðið í Írak ekki mjög harkalega. Þetta kýs flokkurinn að gera þrátt fyrir að kannanir sýni að meirihluti stuðningsmanna hans sé mótfallinn þessari stefnu, sem er umhugsunarefni.

Keppinautarnir um kjötkatlana í Bandaríkjunum, demókratar og repúblikanar hafa að mörgu leyti ansi svipaða stefnu, í það minnsta í utanríkismálum. Báðir hafa svipaða skoðanir á Íraksmálinu, hinu svonefnda stríði gegn hryðjuverkum og átökunum í Ísrael/Palestínu. Og þó, ekki alveg. Demókratar hafa nefnt að þeir telji mikilvægt að afla "bandamanna" til stuðnings stríðsrekstri í fjarlægum löndum, en Bush er meira fyrir einhliða aðgerðir.

En þetta er einungis áherslumunur. Aðalatriðið er að báðir vilja flokkarnir aðhyllast árásarstefnu og vilja kosta miklu til til að framfylgja henni. Demókratar hafa lýst sig reiðubúna til að auka fjárútlát til hersins, sem eru rífleg fyrir, allt að 6 milljörðum dollara á ári!

Hvað er þá til ráða fyrir friðelskandi Bandaríkjamenn sem vilja réttlæti og bætt ástand í mannúðarmálum? Ættu þeir ef til vill að sitja heima á kjördag og mótmæla þannig stjórnmálaástandinu í landinu? Sumir myndu eflaust telja það réttast. Aðrir benda hins vegar á að "allt sé betra en Bush" og því sé rétt af fólki að kjósa.

Sjálf hallast ég að því að kanadíska blaðakonan Naomi Klein hafi nokkuð til síns máls í nýlegri grein sinni. Klein segir mikla orku hafa farið í það undanfarin ár að velta fyrir sér persónuleika Bush, því hvað hann sé treggáfaður og illa máli farinn. Oft hafi heyrst frasar á borð við þann að ofstækismenn, Bush og lið hans, hafi rænt Hvíta húsinu og þetta hafi leitt umræðuna út á rangar brautir og vakið hálfgert vonleysi hjá hinum almenna borgara.

Kerry, nái hann kjöri, muni að mestu framfylgja sömu stefnu og Bush hefur gert. Hann sé hins vegar greindur og eðlilegur maður, og í raun fremur óspennandi persónuleiki. Ef hann verði forseti muni fólk því í auknum mæli snúa sér að því að gagnrýna stefnu hans, í stað þess að hnjóta stöðugt um persónu forsetans líkt og nú er.

Sé þetta rétt er Kerry augljóslega betri kostur en Bush.

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is