SUMARKVÖLDIÐ við orgel Hallgrímskirkju daginn fyrir verzlunarmannahelgi var nánast sem hvítt hjá svörtu miðað við viku áður. Flest það sem þá gat farið í taugar hlustenda var nú á bak og burt, líkt og töfravendi hefði verið veifað.
Skipti umfram allt sköpum hversu skýrt var leikið að þessu sinni. Einkum fyrir músíkalska ögun Áskirkjuorganistans, en sumpart kannski einnig fyrir að nota neðra spilborðið, í stað hins efra eins og fyrirrennarinn viku áður. Að vísu á kostnað beina snertisambandsins við pípuvirkið sem mörgum organista þykir girnilegt. Aftur á móti tryggði staðsetningin niðri á kirkjugólfi öruggari stjórn á því sem barst til hlustenda, og minnti í bland á nytsemi stoðhátalara ("mónítora") fyrir rokksöngvara. Þar á ofan bættist næm tilfinning fyrir fjölskrúðugum raddvalsmöguleikum Klais-orgelsins sem Kári Þormar beitti af frjórri smekkvísi og lunknum húmor.
Aðsókn var með bezta móti; flestir þroskaðir ferðamenn er láta síður etjast á hópforað útihátíða en innfædd ungmenni með dynkjaskólpsfíkn. Eftir reynslu fyrri viku kom fjölbreytni verkavalsins gleðilega á óvart - hafi ekki tápmikil spilamennska Kára Þormar gert útslagið, eins og gruna mátti um upphafs- og niðurlagsatriðin, Kóral Césars Francks nr. 3 í a og Dieu parmi nous Oliviers Messiaens úr La Nativité du Seigneur. Báðir höfundar eiga til að verða ólseigir undir tönn í þungstígri meðalmoðsspilamennsku, en hér lifnuðu þeir sannarlega við með glæsibrag. Eini mínus dagskrár var að vantaði alvöru barokkfúgu til yndisauka og viðmiðunar.
Leipzig-forleikjahlutur Kára, O, Lamm Gottes, unschuldig BWV 656, var þræddur fullbeint af augum og hefði mátt krydda með ofurlitlu rúbatói; nánast eini snöggi bletturinn á glæsilegri heildarframmistöðu. Sálmforleikur Jóns Nordal um sálm sem aldrei var sunginn (1980) var aftur á móti fluttur af tiginborinni reisn. Hið bráðskemmtilega sexþætta franska nútímaverk Najis Hakim, Pange Lingua (1996), bauð m.a. upp á hljómborðsflugelda à la Jerry Lee Lewis, bjástrandi púkakukl í óborganlegri regístrun (3), steigurlátan stertimars og bullandi suðræna kjötkveðju, og sópaði verulega að öllu. Sorgin gleymir engum eftir Gunnar Reyni Sveinsson hefur sjaldan verið jafnskýrt leikið og litríkt raddvalið, og tók beinlínis á sig nýja vídd. Úr "24 pièces" Op. 31 eftir Vierne flutti Kári hið sönghæfa "Litla Gunna og litli Jón" Lied (17), apaspilsskoppandi
Scherzetto (14) og loks æðardúnmjúkt Berceuse (19) með viðeigandi Óla lokbrár-röddum.
Skondin tilviljun var að bæði barnagælan og Dieu parmi skyldi enda á unaðssælum sixte ajoutée-hljómi. Hitt var löngu orðið ljóst að hlustendur myndu arka út með sælubros á vör eftir jafnflottan flutning, er kórónaðist með sindrandi neistaflugi í snertluniðurlagi Messiaens.
Ríkarður Ö. Pálsson