HENRI Cartier-Bresson og Leica-myndavélin hans voru sjaldan langt hvort frá öðru. Þessi heimsþekkti franski ljósmyndari, sem af mörgum er talinn einn fremsti ljósmyndari 20. aldarinnar lést í bænum Cereste í Suðaustur-Frakklandi síðastliðinn mánudag.
Á ferli sínum sem ljósmyndari, sem hófst árið 1930 í París, ferðaðist Cartier-Bresson um allan heim og tók myndir sem margar urðu heimsþekktar. Meðal viðfangsefna hans voru myndlistarmaðurinn Henri Matisse á heimili sínu og söngkonan Edith Piaf, auk stórviðburða á borð við útför Mahatma Gandhi á Indlandi og sigur Mao Zedong í Kína. En við slík söguleg tækifæri þótti Cartier-Bresson andlit áhorfenda ekki síður áhugaverð viðfangsefni og myndir hans af hversdagslífi fólks, sérstaklega í París, eru meðal frægustu verka hans.
Hugmyndafræði Cartier-Bressons í sambandi við ljósmyndun snerist um "ákvörðunaraugnablikið", hugtak sem hann er talinn eiga heiður af og snýst um augnablikið sem lýsir best ákveðinni stund og gerir mynd að helgimynd. Myndir hans þykja um leið óundirbúnar og nákvæmlega uppbyggðar. "Í hverju sem maður tekur sér fyrir hendur, verður að vera samband milli auga og hjarta," sagði Cartier-Bresson í einu af fáum viðtölum sem hann veitti gegnum tíðina. "Með auganu sem er lokað horfir maður inn, með hinu sem er opið horfir maður út."
Cartier-Bresson notaði ætíð Leica-myndavél, sem er hljóðlátust myndavéla, og svart-hvíta filmu. Hann skar hvorki myndir eftir á né notaði flass, enda sagði hann það eyðileggja viðfangsefnið að þröngva því inn í sviðsljósið. Einn af þeim titlum sem loðað hafa við hann er faðir ljósmyndafréttamennskunnar, en árið 1947 stofnaði hann Magnum-ljósmyndaskrifstofuna ásamt Robert Capa og David Seymor. Hann er einnig talinn lykilpersóna í að gera ljósmyndun að virtri starfsgrein, sem áður hafði einungis talist til áhugamáls heldri manna.
Þann 22. ágúst næstkomandi hefði Henri Cartier-Bresson orðið 96 ára, en hann fæddist árið 1908 í Chanteloup í nágrenni Parísar, sonur auðugs kaupsýslumanns og elstur þriggja systkina. Listmálun var hans aðaláhugamál og tvítugur að aldri ákvað hann að snúa sér að listnámi í stað þess að taka við fjölskyldufyrirtækinu. Síðar í lífinu sneri Cartier-Bresson sér frá ljósmyndun og sneri sér í auknum mæli aftur að teikningu og málun. Cartier-Bresson giftist tvisvar, dansaranum Ratna Mohini árið 1937 og Martine Franck árið 1970, en þau eiga saman dótturina Melanie.