Sýning og viðtökur heimildarmyndar Michaels Moores, Fahrenheit 9/11, er í raun stórmerkilegur viðburður. Þar er harðskeytt samfélagsrýni, þar sem áleitnum pólitískum og siðferðislegum spurningum er velt upp, skyndilega komin inn í miðstreymi bandarískrar kvikmyndamenningar. Og það á tímum þegar sífellt færri endast í gegnum ítarlegt lesmál og fréttaskýringaþættir verða sífellt styttri, auglýsingaskotnari og yfirborðskenndari og heilmikla lagni þarf til þess að vekja fólk til meðvitundar um stöðu þjóðfélags- og heimsmála. Þetta ástand er ekki síst aðkallandi í Bandaríkjunum, þar sem samþjöppun á fjölmiðlamarkaði er gríðarleg, og sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðurinn er að mestu leyti lagður undir framleiðslu froðukennds skemmtiefnis. Michael Moore er vel meðvitaður um það fjölmiðlaumhverfi sem landar hans í Bandaríkjunum og víðar búa við, og spilar markvisst inn á það í viðleitni sinni við að vekja máls á hlutum sem honum þykja skipta máli í bandarísku þjóðlífi. Og þar hefur hann í raun fundið aðferð til þess að róta upp þungvægri pólitískri umræðu á tungumáli sem er aðgengilegt breiðum hópi fólks. Sá hárfíni hæfileiki sem Moore býr yfir felst m.a. í því að beita óspart lögmálum afþreyingarkvikmyndarinnar, án þess að umræðan sé einfölduð (um of) eða gerð léttvæg fyrir vikið.
Í Fahrenheit 9/11 beinir Moore sjónum að George W. Bush Bandaríkjaforseta og ríkisstjórn hans. Eins og bent hefur verið á er fátt í myndinni sem felur beinlínis í sér afhjúpanir eða uppljóstranir, en hér er fyrst og fremst um að ræða samantekt á umdeildum efnum sem ýmist hafa eða ættu að hafa verið efst á baugi í bandarísku þjóðlífi undanfarin fjögur ár. Í stuttu máli er stefna stjórnarinnar í utan- og innanríkismálum hugleidd og rýnt í aðdraganda og eftirköst hins örlagaríka dags, er hryðjuverkamenn gerðu stórfellda árás á Bandaríkin, hinn 11. september 2001.
Það dylst engum að Moore tekur afstöðu til umfjöllunarefnis síns og tekur sterkt til bæði orða og mynda. En meginmarkmiðið með myndinni er fullkomlega gjaldgengt og í raun aðkallandi, því þar er spurt spurninga á borð við: Hvers vegna var lítið sem ekkert tekið á því í fjölmiðlum og dómskerfinu þegar kosningaréttur þúsunda blökkumanna var fótum troðinn í Flórída-ríki í forsetakosningunum árið 2000? Er eðlilegt að áhrifamiklir aðilar í eða tengdir ríkisstjórn Bush forseta hagnist beint af stríðsrekstri og meðfylgjandi uppbyggingarstarfi í Írak? Og hverjar eru raunverulegar forsendur þess stríðs og fyrir hvað eru hermenn og almennir borgarar að deyja? Hvaða áhrif hafa náin en lítt sýnileg viðskiptatengsl Bandaríkjanna við olíuríkið Saudi-Arabíu á utanríkisstefnu landsins? Gerir fólk sér grein fyrir því hversu gróflega gengið er á borgaraleg réttindi í nafni hryðjuverkavarna í Föðurlandslögunum svokölluðu? Og eru menn yfirleitt að horfa í rétta átt í viðbrögðum sínum við hryðjuverkaógninni? Og að lokum - af frammistöðu Bush á opinberum vettvangi og frásögnum innanbúðarmanna á borð við fyrrverandi öryggisráðgjafans Richards Clarkes að dæma - er Bush almennt hæfur til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna?
Allra þessara spurninga og margra annarra spyr Moore og gætir þess vandlega að staðhæfa hvergi um eitthvað sem reka mætti ofan í hann með lögsókn. En á sama tíma notar hann kvikmyndamiðilinn til þess að bæði skerpa og margfalda samhengið, krydda frásögnina svo að athygli áhorfenda haldist nú við efnið (m.a. með því að draga fram kaldhæðnislegu hliðarnar á málunum), og setja hlutina fram á nægilega skýran hátt til þess að sem flestir, hinir menntuðu og ómenntuðu, vel lesnu og ólæsu, heilbrigðistryggðu og óheilbrigðistryggðu, nái því sem verið er að tala um. Og hér koma hæfileikar Moores glöggt í ljós enda leikur miðillinn í höndunum á honum. Allt frá dægurtónlist, til myndskeiða úr kúrekamyndum, skrækum áhrifahljóðum og örvum sem benda á aðalatriðið er beitt til þess að árétta og lífga upp á umræðu sem annars teldist eflaust í þurrara lagi. En þessi stílbrögð eru líka meðvituð leið Moores til þess að vísa á og afhjúpa eigin frásagnartækni, og minna á að heimildarmyndir lúta lögmálum framsetningar eins og öll önnur miðlun.
Í Fahrenheit 9/11 er ekki eingöngu hamast í Bush, heldur er einnig reynt að benda á þætti sem ekki ættu að líðast í sönnum lýðræðissamfélögum, svo sem bein áhrifatengsl milli peningavalds og stjórnvalda, og stéttaskiptingu sem viðhelst í gegnum takmarkað aðgengi stórs hluta þjóðarinnar að góðri menntun og þar með atvinnutækifærum. Þar kemur herinn reyndar sterkt inn því líkt og dregið er fram á skarpan hátt í myndinni, eru það fyrst og fremst hinir efnalitlu og ómenntuðu sem ganga að gylliboðum "herliðssmala" ríkisstjórnarinnar, í von um að geta menntað sig eða gegnt sómasamlegu starfi.
Hér erum við líka farin að nálgast dramatískar og átakanlegar hliðar heimildarmyndarinnar. Þar beinir Moore sjónum að fólki sem stendur ráðþrota andspænis ákvörðunum stjórnvalda, allt frá bláeygum amerískum hermönnum sem vaknað hafa upp við grimman veruleika stríðsins, til harmi sleginna íraskra borgara, sem hafa sætt harðræði eða misst ástvini í stríðsátökunum. Hér dregur Moore fram hið mannlega í átakastorminum, en í öðrum myndskeiðum dregur hann fram hið grimmilega ómennska og firrta svo að hroll setur að áhorfandanum. Auðvitað ætti maður ekki að þurfa að láta reka framan í sig myndir af fórnarlömbum sprenginga eða örvæntingu fólks í stríðsaðstæðum til þess að virkilega hugleiða slíkar skelfingar. En þessar myndir gefa myndinni vigt og sýna aðra hlið en hinir miðstýrðu bandarísku fjölmiðlar.
Í því stóra og flókna samhengi sem Moore reynir að demba yfir áhorfendur, leynast tveir kjarnar sem sitja eftir í vitund manns líkt og táknmyndir fyrir umræðu Fahrenheit 9/11. Þetta er annars vegar frásögn Lilu Lopscomb sem missti son sinn í Írak, sem deilir tilfinningum sínum, hugleiðingum og sárri reiði með áhorfendum. Hins vegar er um að ræða myndbandsupptöku sem sýnir George W. Bush á þeirri stundu er honum var sagt að "Bandaríkin sættu árás" strax eftir hryðjuverkin 11. september. Óviss um hvað gera skyldi, og sleginn yfir þessum allt að því óraunverulegu fregnum, fellur gríma "forsetans" og við blasir ráðvilltur og óöruggur pabbastrákur. Myndir á borð við þessar segja meira en þúsund orð.
Heiða Jóhannsdóttir