SAKSÓKNARAR danska hersins birtu Annemette Hommel, höfuðsmanni í danska hernum, ákæru í fjórum liðum í gær fyrir vanrækslu í starfi en Hommel var send heim frá Írak ásamt yfirmanni sínum, Henrik Flach, vegna fullyrðinga um að hún hefði misþyrmt föngum í Abu Ghraib fangelsinu. Hommel segir ásakanirnar byggðar á misskilningi.
Hommel er sökuð um að hafa svívirt fanga, neitað þeim um mat og vatn og neytt þá til að sitja í sársaukafullum stellingum. Hún segir ásakanirnar til komnar vegna misskilnings danskra túlka af palestínskum uppruna innan búðanna.
Peter Otken saksóknari sagði ekki hafa verið um líkamlegar misþyrmingar að ræða. "Engar grunsemdir eru um að mennirnir hafi verið barðir, eða sparkað í þá," sagði Otken en rannsókn saksóknara hefði leitt til fjögurra ákæra á hendur Hommel.
Hommel sagði í viðtali við AP-fréttastofuna að yfirheyrslur yfir íröskum uppreisnarmönnum "minntu ekki á kaffiboð" og hefðu verið "alvarlegar samræður um alvarleg efni." Hún viðurkenndi að hafa neitað fanga um vatn og neytt hann til að sitja á gólfinu en sagði vinnubrögðin í samræmi við Genfarsáttmálann.
Sagðist Hommel hafa yfirheyrt meðlim uppreisnarsamtaka er tengdust sjítaklerknum Muqtada Sadr. "Hann var verulega ósvífinn og reyndi á allan hátt að víkja sér undan spurningum mínum og fór að biðja um vatn," sagði Hommel. Hún hefði neitað honum um það. "Líkami hans var ekki í því ástandi að þurfa bráðnauðsynlega á vatni að halda. Þetta var aðferð til að trufla yfirheyrslurnar." Þrír aðrir yfirmenn hersins hefðu verið viðstaddir yfirheyrsluna og ekkert haft út á hana að setja.
Hommel sagði túlka búðanna hafa mistúlkað röksemdafærslu hennar og kvartað yfir meðferðinni við yfirmann hennar. Túlkarnir hefðu ekki haft fullan skilning á vinnubrögðum hersins.
Kaupmannahöfn. AP.