VÍSINDAMENN í Kaliforníu í Bandaríkjunum eru vongóðir um að hægt verði að þróa bóluefni gegn Alzheimer-sjúkdóminum. Frá þessu er greint á fréttavef BBC.
Rannsóknir vísindamanna við Kaliforníu-háskóla í Irvine, sem greint er frá í tímaritinu Neuron, sýna að þegar mótefni er sprautað í mýs, sem farið hafa í gegnum erfðabreytingu þannig að þær geti þróað einkenni Alzheimer-sjúkdómsins líkt og menn, getur það komið í veg fyrir útfellingar sem hefta blóðflæði í heilanum en það er eitt helsta einkenni Alzheimer-sjúkdómsins. Útfellingarnar verða þegar próteinið beta amyloid tekur að myndast í heilanum.
Kenningar vísindamanna gera ráð fyrir að myndun þessa próteins leiði af sér myndun annars próteins, tau, í heilasellunum sem eyði þeim innan frá. Rannsóknirnar í Kaliforníu þóttu sýna að mótefnið kom einnig í veg fyrir myndun þessa próteins.
Þarf að grípa tímanlega inn í
Vísindamennirnir í Kaliforníu sprautuðu mótefni gegn beta amyloid-próteininu í lærdóms- og minnishvel heilans. Hreinsuðust útfellingar, sem heftu blóðflæðið, upp á innan við þremur dögum. Hafði þetta síðan þau áhrif að stíflur af völdum tau-próteinsins hreinsuðust einnig upp. Rannsóknirnar sýndu að innan mánaðar voru aftur farnar að myndast útfellingar en þó ekki af völdum tau-próteinsins, sem þykir benda til að sú þróun eigi sér stað á síðari stigum sjúkdómsins.Segir í grein vísindamannanna í Neuron að niðurstöðurnar "bendi til að bólusetning kunni að reynast gagnleg við að hreinsa upp heilaskemmdirnar sem einkenna Alzheimer, að því gefnu að þessi inngrip eigi sér stað nógu snemma í þróun sjúkdómsins".
Hættuleg nálgun
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, tók í samtali við Morgunblaðið undir að þessi nálgun á Alzheimer-sjúkdóminn væri sumpart spennandi. Hún væri að sama skapi mjög varasöm. Þessar rannsóknir fælu í sér að búin væri til bólgusvörun í heila, erfitt væri hins vegar að einskorða slíka svörun við eitt svæði heilans. Mikil hætta væri því fyrir hendi á alvarlegum aukaverkunum. Þessar rannsóknir segðu af þeim sökum því miður lítið um möguleikana á að búa til ný meðferðarúrræði fyrir menn.Íslensk erfðagreining hefur verið að rannsaka erfðafræði Alzheimer-sjúkdóms í mönnum undanfarin ár og segir Kári að þær rannsóknir séu teknar að gefa spennandi niðurstöður. Ekki sé hins vegar meiningin að greina frá þeim fyrr en búið verði að fá samþykkta fræðigrein til birtingar í vísindatímariti.